Skip to main content

Aldrei meiri umferð á Hringveginum í júlí en Austurland eftirbátur

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 14. ágú 2023 16:32Uppfært 14. ágú 2023 16:34

Umferð á Hringveginum á Austurlandi í júlímánuði dróst saman um 4,5 prósent miðað við síðasta ár samkvæmt nýútgefnum tölum Vegagerðarinnar. Á landsvísu hefur umferðin á þessum vegi um landið aldrei nokkurn tímann verið meiri í júlí.

Enginn landshluti kemst í hálfkvisti við Austurland hvað viðkemur minni umferðarþunga á Hringveginum í liðnum júlímánuði. Umferðin á Hringveginum austanlands í júlí 2023 reyndist 4,5 prósent minni en í sama mánuði fyrir ári síðan. Það ár, 2022, mældist einnig samdráttur á umferð í júlímánuði austanlands frá árinu 2021.

Norðurland hlýtur sömu örlög. Þar minnkaði umferðin á Hringveginum þar um slóðir líka frá júlí fyrir ári síðan en öllu minna þó eða um 1,9 prósent. Þar líka fækkaði bílum á Hringveginum í júlímánuði frá 2021 til 2022.

Til samanburðar jókst umferðarþungi á þessum vegi á öllum öðrum stöðum og þar langmest á höfuðborgarsvæðinu eða um heil 10,5 prósent frá júlí 2022. Á Suðurlandi jókst traffíkin lítið minna eða um 9,4 prósent og um 4,9 prósent á Vesturlandi.

Vegagerðin mælir þó aukinn umferðarþunga á Hringveginum hér austanlands alls fyrstu sex mánuði ársins en þar líka er Austurland eftirbátur annarra landshluta. Frá áramótum hefur umferð aukist um 3,7 prósent á Austurlandi, 7,5 prósent á Norðurlandi, 4,9 prósent á Vesturlandi, 7,4 prósent á höfuðborgarsvæðinu og um heil 16 prósent á Suðurlandi.

Sérfræðingar hjá Vegagerðinni meta það svo að alls geti umferð um Hringveginn aukist um 7 prósent umfram síðasta ár með þessu áframhaldi. Gangi það eftir verður nýtt umferðarmet slegið á Hringveginum.