Aldur og þreyta til þess að Eyji NK var seldur frá Norðfirði
Eini báturinn á Austfjörðum sem hefur undanfarin ár stundað veiðar á sæbjúgum, Eyji NK-4, hefur verið seldur burt frá Neskaupstað.
Það staðfestir Einar Halfdánarson, sem átt hefur bátinn um langa hríð og fyrst og fremst gert út á sæbjúgun en einnig ígulker á köflum. Hann segir ástæðu sölunnar þá að aldur og fyrri störf hafi verið farin að setja mark sitt á hann enda vinnan tiltölulega erfið.
„Þetta starf tekur aðeins í þó skemmtilegt sé auðvitað líka. Það svona helstu ástæðurnar en svo varð líka alltaf erfiðara og erfiðara að manna bátinn og þetta ekki starf sem maður vinnur mikið einn.“
Einar vill ekki gefa upp hverjir kaupendur voru en segir þar ekki um Austfirðinga að ræða svo hugsanlega fer báturinn eitthvað allt annað. Aðspurður um hvort enginn áhugi hafi verið meðal heimamanna eystra segir Einar áhuga vissulega verið til staðar.
„Það voru alveg fyrirspurnir héðan vegna bátsins en það er svo að þetta kostar töluverða peninga og það reyndist of stór biti fyrir þá sem voru eitthvað að skoða málið. Þá kaus Fjarðabyggð ekki að nýta sér sinn forkaupsrétt heldur.“
Báturinn hverfur þó ekki alveg að sinni frá Neskaupstað því Einar hyggst gera áfram út í einhvern tíma í umboði útgerðarinnar sem bátinn keypti.
Eyji NK-4 að koma til hafnar í Neskaupstað í blíðskaparveðri fyrir nokkru. Mynd Hlynur Sveinsson