Skip to main content

Alfreð Erling dæmdur ósakhæfur en skal sæta öryggisvistun á stofnun

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. mar 2025 14:07Uppfært 13. mar 2025 14:09

Ekkert bendir til að Alfreð Erling Þórðarson hafi skipulagt né ætlað sér að ráða hjónum í Neskaupstað bana í ágúst í fyrra. Öllu heldur hafi hann verið ófær um að stjórna gjörðum sínum sökum geðrofs og því var hann dæmdur til öryggisvistunar á stofnun í stað fangelsisdóms samkvæmt dómi héraðsdóms Austurlands fyrr í vikunni.

Þrír dómarar við héraðsdóm Austurlands komust að þessari niðurstöðu að Alfreð Erling Þórðarson sem sannað var að réði hjónunum bana í Neskaupstað í ágúst í fyrra sé ósakhæfur. Hann var því sýknaður af kröfu ákæruvaldsins um allt að 16 ára fangelsisvist en skal sæta langtíma öryggisgæslu á viðeigandi stofnun.

Dómararnir Hákon Þorsteinsson, Barbara Björnsdóttir og geðlæknirinn Tómas Zoëga, sem var skipaður í dóminn sem sérfróður meðdómari, kváðu upp dóm þennan. Byggði niðurstaða þeirra á þeirri staðreynd að sannað hafi verið að maðurinn hafi glímt við geðheilsubresti í langan tíma sem ágerðust töluvert árið 2015 og farið hríðversnandi síðan þá.

Geðrof og ranghugmyndir

Alfreð Erling var handtekinn í Reykjavík eftir að grunur féll á hann þegar það uppgötvaðist að hjónunum Rósu G. Benediktsdóttur og Björgvini Ólafi Sveinssyni hafði verið ráðinn bani að heimili þeirra í Neskaupstað með hrottalegum hætti með klaufhamri. Sá hamar fannst í bíl hans og blóð í fötum hans við handtökuna. Síðar var staðfest að blóðið tilheyrði hjónunum í Neskaupstað.

Til marks um bágborna geðheilsu kom fram fyrir dómnum að hann var handtekinn vorið 2024 í slæmu ástandi með stóran hníf í höndunum sem hann ógnaði vegfarendum með og var handtekinn í kjölfarið. Það var um miðjan maí og við skýrslutökur komu fram miklar ranghugmyndir um ýmsa hluti. Meðal annars þeirri trú að lögreglan hyggðist ráða sig af dögum við fyrsta tækifæri. Var hann sökum þess færður til nauðungarvistunar á geðdeild en fékk lausn þaðan um mánaðamót júlí, ágúst en morðin voru framin tæpum þremur vikum síðar.

Bar ekki skynbragð á broti sínu

Í dómsorði kemur fram að: „[...] er það mat dómsins, í ljósi þess sem að framan er lagt til grundvallar um háttsemi hans og mat á geðheilbrigði, að ekkert bendi til þess, með hliðsjón af hinum stranga lögfræðilega sakhæfismælikvarða, að ákærði hafi skipulagt að ráð hjónunum bana umrætt kvöld. Heldur ekki að hegðun hans að öðru leyti gefi það til kynna að hann hafi borið skynbragð á eðli þess afbrots sem komist hefur verið að niðurstöðu um að hann hafi framið í umrætt sinn eða að öðru leyti haft ásetning til þess verks. Að mati dómsins er í þessu ljósi og með vísan til sömu gagna um geðheilbrigði ákærða, sem ná aftur fyrir það tímamark sem sakargiftir [...] taka til, óhjákvæmilegt að leggja sams konar mat á geðheilbrigði ákærða og hið lögfræðilega sakhæfi hans er hann viðhafði þá háttsemi sem hann hefur skýlaust játað að hafa framið þann 12. maí 2024. Í þeim efnum er þess þó einnig sér í lagi að geta að það mat dómsins fær aukinheldur stoð í því að í það sinn hafði ákærði uppi hugmyndir um að Ríkislögreglustjóri ofsækti hann andlega og var hann talinn í slæmu andlegu og líkamlegu ástandi við handtöku. Ákærði telst því ósakhæfur og ber að sýkna hann af kröfu ákæruvaldsins um refsingu í málinu samkvæmt 15. grein almennra hegningarlaga.“