Skip to main content

Algjör „þrusuvertíð“ í loðnunni

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 15. feb 2022 14:14Uppfært 15. feb 2022 14:18

„Vertíðin hefur gengið vel - þetta er þrusuvertíð,“ segir Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti NK, aðspurður út í loðnuveiði vetrarins.

Rætt er við Tómas á vef Síldarvinnslunnar en skipin Beitir NK og Börkur NK hafa komið að landi með um 50 þúsund tonn af þessum verðmæta fiski það sem af er vertíðinni. Þessi tvö skip bera því ábyrgð rúmlega fimmtán prósent alls loðnuafla sem landað hefur verið hingað til en heildarmagnið sem veiðst hefur telur 329 þúsund tonn alls.

Allra mikilvægasti veiðitíminn á loðnu er að hefjast um þessar mundir eða um leið og loðnan verður frystingarhæf og í kjölfarið þegar hrognavinnsla hefst en það er verðmætasti hlutinn og fer undantekningarlaust á markaði í Asíu.

Japaninn bíður spenntur eftir þessari veislu. Hafró hefur gefið út að kvótinn verði hugsanlega eitthvað skertur en hafa verður í huga að eins og mál standa er fremur ólíklegt að Norðmennirnir nái að veiða það sem þeim var úthlutað.