Álklæðning talin breyta upprunalegri ásýnd Herðubreiðar

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings telur óhjákvæmilegt annað en að klæða félagsheimilið Herðubreið með álklæðingu þrátt fyrir mótbárur hóps fólks sem telur slíkt breyta mjög upprunalegu útliti hússins.

Ráðið tók erindi hópsins fyrir í vikunni en þegar hefur formlega verið óskað eftir tilboðum í klæðingu og glugga hússins af hálfu sveitarfélagsins. Það útboð kemur í kjölfar fyrri útboða í múrviðgerðir á húsinu sem engan árangur báru.

Hópurinn, sem samanstendur af fimm arkitektum auk forstöðukonu Herðubreiðar, segir fyrirhugaða álklæðingu útiloka að hægt verði að vernda upprunalegt útlit þessa merka húss og bendir á þau mistök sem gerð voru þegar sundhöllin í bænum var klædd Garðastáli á sínum tíma. Bæði sundhöllin og félagsheimilið voru um miðja síðustu öld hönnuð af fremstu arkitektum þjóðarinnar; þeim Guðjóni Samúelssyni og Gísla Halldórssyni.

Ráðið tekur undir að mörgu leyti með bréfriturum í bókun vegna þessa en bendir á að ekki hafi tekist að fá verktaka til að lagfæra byrði hússins gegnum árin og ástandið á húsinu sé nú orðið of alvarlegt.

Nú er staðan sú að ástand hússins er talið það alvarlegt að ekki sé unnt að bíða lengur með aðgerðir. Því var ákveðið að fara í að klæða húsið að utan. Það er ljóst að þessi aðgerð er ekki fyrsta val, en ráðið styður þá ákvörðun heimastjórnar að láta klæða húsið.

Auglýsing eftir tilboðum í klæðingu og gluggaskipti Herðubreiðar var birt um miðjan mánuðinn á vef Múlaþings en tilboðsfrestur er ekki runninn út.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.