Skip to main content

Allar líkur á að Lyngbúinn sé útdauður í Norðfirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. maí 2025 10:41Uppfært 21. maí 2025 10:53

Ein af einkennisplöntum Austurlands, hinn friðaði Lyngbúi, er að öllum líkindum útdauður í Norðfirði en þar voru áður nokkrir þekktir fundarstaðir þessarar fallegu plöntu.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýbirtri ársskýrslu Náttúrustofu Austurlands vegna ársins 2024. Reyndar hafa leitir starfsfólks Náttúrustofunnar engan árangur borið í Norðfirði allmörg ár í röð.

Plantan fannst nokkuð reglulega áður fyrr í hlíðinni fyrir ofan Neskaupstað og innan Fólkvangsins. Hennar varð aðeins vart síðasta sumarið í Hellisfirðinum þó skráðir fundarstaðir gegnum tíðina nái allt norður til Njarðvíkur og sagnir eru um að hennar hafi orðið vart í Vopnafirðinum.

Grunur beinist helst að útbreiðslu Alaskalúpínu sem sökudólgsins en sú ágenga planta hefur dreift sér sífellt meira um hlíðar Norðfjarðar sem víðar. Lúpínan er líka farin að gera landnám í Hellisfirðinum svo ástæða er til að hafa áhyggjur af framtíð Lyngbúans þar líka. Það þó bót í máli að Umhverfis-, orku- og náttúruverndarstofnun hefur lagt áhersla á að sporna við útbreiðslu ágengra tegunda sem eykur bjartsýni starfsfólks Náttúrustofunnar um að rætast megi úr.

Einu fundarstaðir Lyngbúans á Íslandi er austanlands og þess vegna er hún skráð sem ein af einkennisplöntum fjórðungsins. Mynd Náttúrustofa Austurlands