Skip to main content

Allar austfirsku útgerðirnar langt komnar með makrílkvótann

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 17. ágú 2023 11:45Uppfært 17. ágú 2023 21:28

Allar útgerðir á Austurlandi sem gera út á makríl eru langt komnar með þann kvóta sem þeim var úthlutað.

Fyrr í vikunni greindi Austurfrétt frá því að glimrandi vel gengi að veiða og vinna makríl hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað. Svo vel reyndar að góðar líkur væru á að kvótinn kláraðist strax í þessum mánuði þegar algengara er að þær veiðar teygist vel fram í september.

Sama er uppi á teningnum hjá öðrum stærri útgerðum á Austurlandi samkvæmt svörum við fyrirspurnum.

Hjá Eskju á Eskifirði hefur sömuleiðis gengið mjög vel og þar eiga menn aðeins um 2.500 tonn eftir af sínum kvóta. Hjá Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði er aðeins einn túr eftir á miðin í Smugunni áður en kvóti þeirra klárast en þegar hafa veiðst um 6.000 tonn. Þá segir Ingimundur Ingimundarson, útgerðarstjóri Brims, að vel gangi á Vopnafirði. Þegar um 20 þúsund tonn komin á land og einungis eftir að veiða um sex þúsund tonn áður en yfir lýkur.