„Allir vilja nýta sínar eignir á sinn bestan hátt“
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 28. sep 2023 09:13 • Uppfært 28. sep 2023 09:15
Eigendur átta jarða í Fljótsdalshreppi skrifuðu í síðustu viku undir samninga við danska orkufyrirtækið CIP um rétt til byggingar vindmylla á landi þeirra að undangengnum frekari rannsóknum. Landeigandi vonast til að mögulega uppbygging verði til að þess að styrkja samfélagið í sveitinni.
„Við vorum að skrifa undir samning um leigu á landi undir vindmyllur. Síðan á eftir að gera frekari rannsóknir. Ef þær koma vel út sem og athuganir á hagkvæmni þá gilda þessir samningar líka fyrir framkvæmdina sjálfa,“ segir Þórarinn Þórhallsson, landeigandi að Þorgerðarstöðum í Fljótsdal.
CIP samdi við eigendur að landi á Fljótsdalsheiði, Múla og Víðivallahálsi. Fyrirtækið hefur hug á að reisa þar vindmyllur sem framleiða rafmagn fyrir Orkugarð Austurlands, sem CIP stendur að ásamt fleiri aðilum. Þar er fyrirhugað að framleiða rafeldsneyti.
Stjórnvalda að setja reglur og tryggja rétt allra
Verkefnið fór af stað sumarið 2021 en síðar það ár fór CIP að sýna áhuga á landi í Fljótsdal. Snemma í ferlinu hófu þeir landeigendur sem að borðinu komu að vinna sameiginlega að samningum. Þórarinn segir það mikilvægt til að viðhalda sátt í litlu samfélagi en um 100 íbúar eru í dalnum.
„Við höfum reynt að vanda okkur og buðum öllum landeigendum að vera með. Þetta er lítið samfélag og því mikilvægt að allir komi saman því svona verkefni verður að vera gott fyrir samfélagið.“
Hann segist ekki hafa orðið var við mikla gagnrýni innan sveitar en þar voru í fyrra haldnir tveir íbúafundir um verkefnið. „Það eru alltaf skiptar skoðanir um það sem er gert. Það voru ekki allir sammála um Kárahnjúkavirkjun ef við tökum hana sem dæmi. Hins vegar er margt gott sem hefur komið út úr þeirri framkvæmd bæði tekjur og innviðir fyrir sveitarfélagið, ferðamenn og íbúa þess.
Það er ekki svona hópa að huga að sérstakri gagnrýni. Það er stjórnarskrárvarinn réttur að ráðstafa landi sínu svo framarlega sem það gangi ekki á rétt annarra. Þar er það stjórnvalda að setja lög þar um og framfylgja þeim. Með því móti ætti réttur allra að vera tryggður.
Þess vegna höfum við ekki fjallað sérstaklega um hvaða álit fólk hefur á þessu. Ég hef ekki fundið fyrir mikilli andstöðu hér í dalnum.“
Vonast eftir að vindmyllurnar styrki samfélagið
Aðspurður segir Þórarinn að ekki allir þeir landeigendur sem voru með í viðræðunum í fyrstu hafi endað á að skrifa undir samninga. „Það var stór hópur með samliggjandi jarðir sem spáði í þetta en svo hættu einhverjir við. Við tjáum okkur ekki sérstaklega um hvers vegna fólk gerði það. Það er einkamál hvers og eins.“
Þórarinn segir samninginn fela í sér leigutekjur fyrir landið sem velta á orkusölu. Hann bætir við að hann voni að samfélagið allt hagnist, ekki bara landeigendur. „Allir sem eiga land vilja nýta það á sem skynsamlegastan máta. Þetta snýst ekki bara um hvað felst í samningunum fyrir okkur heldur held ég að þetta geti verið framfaraskref og auknar tekjur fyrir sveitarfélagið og alla íbúa þess. Það er talað um að vindorkugarðurinn skapi beint 20 ný störf innan sveitarfélagins og trúlega mun meira á framkvæmdatímanum. Það væri gott ef eitthvað af því fólki flytti í dalinn.“
Engar framkvæmdir á morgun
Þórarinn minnir á að þótt þessir samningar liggi fyrir sé verkefnið engan vegin enn hafið. „Það er enginn sem væntir þess að verði byrjað að byggja á morgun. Það er talað um rannsóknir næstu fimm árin, jafnvel lengur. Að auki á eftir að setja reglur hérlendis um vindmyllur.“
Þórarinn kveðst almennt jákvæður fyrir vindmyllum. „Landsnet og aðrir sem koma að stefnumótun í orkumálum hafa sagt nauðsynlegt að bjóða upp á fleiri raforkukosti en við höfum í dag. Ég held þær séu ágætur kostur og í raun nauðsynlegar ef fólki er alvara með orkuskiptum.
Vindmyllurnar eru tiltölulega skaðlitlar fyrir umhverfið. Það er hægt að taka þær niður og þá er nánast eins og þær hafi aldrei verið. Vissulega hafa allar byggingar mannanna áhrif á umhverfið en það er til dæmis munur á vindmyllum sem hægt er að taka niður, ef og þegar ný tækni leysir hana af hólmi eða sökkva heilu dölunum undir vatn.“