Allir viljugir að aðstoða Grindvíkinga

Íris Sverrisdóttir, uppalinn Grindvíkingur sem í dag býr á Egilsstöðum, segir mikinn samhug ríkja meðal Grindvíkinga hvar sem þeir séu uppaldir eftir að bærinn var rýmdur vegna hættu á eldgosi síðasta föstudag. Þá séu aðrir landsmenn tilbúnir að gera það sem þeir geta til að aðstoða.

„Mér finnst ég bjargarlaus hér, fjærri fjölskyldu og vinum. Grindavík er heimabærinn minn og ég er alinn þarna upp. Hugsunin um að missa hann mögulega er óbærileg.

Við Grindvíkingar eru þekkt fyrir að vera sérstakur þjóðflokkur. Við erum stolt af bænum okkar og þykir mjög vænt um hann,“ segir Íris Sverrisdóttir, sem búið hefur á Egilsstöðum síðastliðin fimm ár.

Foreldrar hennar og fjölmargir vinir eru meðal þeirra sem þurftu að yfirgefa Grindavík á föstudag og óvíst er hvenær geti farið til baka. „Óvissan er verst. Þetta er ekki dagur fyrir dag heldur klukkutími fyrir klukkutíma. Fólk veit ekkert hvað gerist,“ bætir Íris við.

Austfirðingar finna sínar leiðir til að hjálpa


Hún er meðal þeirra sem tekið hafa þátt í að aðstoða Grindvíkinga með að auglýsa eftir húsnæði fyrir þá. „Ég veit að Grindvíkingar um allt land og allan heim eru að reyna að hjálpa. Austurland er langt frá Grindavík en ég finn mikinn samhug frá fólkinu hér sem vill hjálpa og reynir að finna sínar leiðir til þess.

Fyrst átti rýmingin að vera tímabundin en nú sjáum við fram á að þetta verði lengri tími. Fólk fór fyrst í tímabundið húsnæði og er að missa það en vantar húsnæði til lengri tíma. Ég vona að sem flestir komist í stöðugra húsnæði í aðdraganda jóla frekar en þurfa stöðugt að flakka á milli.

Oft á fólk úti á landi líka íbúð á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef skrifað á Facebook til að athuga hvort einhver þeirra væri laus. Ég hef ekki enn fengið íbúðir syðra en fólk hefur haft samband og boðið fram íbúðir hér ef einhverjir kæmu austur. Þetta eru ekki íbúðir sem eru lausar að staðaldri heldur en fólk tilbúið að hagræða til að hjálpa.“

Hún hefur trú á að hvað sem verða vill þá haldi Grindvíkingar áfram að standa saman sem samfélag. „Að missa samfélagið Grindavík er ótrúlega erfið hugsun. Eftir sem líður á fæ ég meiri trú á að samfélagið Grindavík verði áfram til. Grindvíkingar eru stoltir og samheldnir og byggja sitt samfélag aftur upp, sama hvar það verður.“

Kveðja frá Múlaþingi


Á fundi sveitarstjórnar Múlaþings í dag var send kveðja til Grindvíkinga og aðstandenda þeirra. Þar segir meðal annars að aðdáunarvert hafi verið að fylgjast með samstilltri og öflugri vinnu viðbragðsaðila við krefjandi aðstæður. Hugurinn sé hjá Grindvíkingum sem hafi þurft að yfirgefa heimili sínu og búi við mikla óvissu.

Vakin er athygli á að Rauði kross Íslands hafi komið upp síðu þar sem fólk af öllu landinu geti boðið fram húsnæði fyrir íbúa Grindavíkur. Ekki muni standa á Múlaþingi að bjóða fram aðstoð á krefjandi tímum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.