Skip to main content

Allra fyrsta einkaflugskýlið á Norðfjarðarflugvelli fer senn að rísa

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. ágú 2025 13:03Uppfært 12. ágú 2025 16:31

Heimafólk í Neskaupstað mun líkast til veita því athygli að framkvæmdir fara senn fram á Norðfjarðarflugvelli. Þar verður á ferðinni fagfólk byggingafyrirtækisins Nestaks sem mun reisa allra fyrsta flugskýli sem sett hefur verið upp á flugvelli bæjarins.

Það er skipstjórinn og flugáhugamaðurinn Tómas Kárason sem fengið hefur leyfi til að setja upp fyrsta flugskýlið við völlinn en Tómas hefur um áratugaskeið haft flugið sem sitt helsta áhugamál, ekkert síður en bróðir hans Kári Kárason, flugstjóri hjá Icelandair, en Tómas hefur lengi haft sína eigin flugvél til umráða þegar ekki er verið að fiska á hafi úti.

„Skýlið er ætlað undir vélina mína og framkvæmdir ættu að hefjast mjög fljótlega. Það eru Nestaksmenn sem sjá um það af sinni þekktu fagmennsku og ég á von á að skýlið verði að fullu tilbúið snemma í septembermánuði. Þeir eru að fara að byrja á þessu strax í þessari viku að steypa grunninn og hefja verkefnið. Skýlið er um 168 fermetrar að stærð sem passar vel fyrir mína vél. Þarna hefur aldrei verið neitt flugskýli þannig að ásýndin mun taka einhverjum breytingum en þetta er bókstaflega búið að vera draumur hjá mér allar götur síðan 1990 og nú er þetta loks að verða að veruleika.“

Tómas segir skýlið verða hefðbundið bogalaga skýli sem sérhönnuð eru sem flugskýli, með flugskýlishurðum og þola mikinn vind. Það sé stórt atriði því oft blæs duglega inn fjörðinn.

„Það kannski gera sér ekki allir grein fyrir því en Norðfjarðarflugvöllurinn er í töluverðri notkun allan ársins hring og völlurinn og allur búnaður er allur mjög góður. Þaðan er auðvitað töluvert sjúkraflug og fleiri aðilar eru að nýta sér aðstöðuna reglulega. Þarna er æði flottur búnaður eins og veðurstöð og góður ljósabúnaður og í raun allt eins og best verður á kosið.“

Uppbygging á flugvelli Norðfirðinga hefur verið lítil um langt skeið en nú horfir það til breytinga strax í vikunni. Mynd Fjarðabyggð