Alls 180 milljónir króna til Fjarðabyggðar og Múlaþings úr Fiskeldissjóði
Alls 180 milljónir króna komu í hlut sveitarfélaganna Fjarðabyggðar og Múlaþings við nýlega úthlutun Fiskeldissjóðs. Öllu hærri upphæð fór þó til Fjarðabyggðar eða 135 milljónir til þriggja verkefna meðan Múlaþing fékk 45 milljónir til eins verkefnis.
Alls sótti Fjarðabyggð um styrki til fjögurra verkefna að þessu sinni en fengu aðeins jákvætt svar við þremur þeirra. Það til endurbóta á Íslenska stríðsárasafninu, til lagfæringa á Fjarðabyggðahöllinni og vegna fráveitu á Eskifirði. Hvert verkefnanna hlaut rétt tæpar 45 milljónir króna úr sjóðnum. Fjórða umsóknin um sérstakt varðveisluhús safna sveitarfélagsins hlaut ekki brautargengi að þessu sinni.
Af hálfu Múlaþings var í vetur sótt um rúmlega 240 milljóna króna styrk úr Fiskeldissjóði annars vegar vegna stækkunar leikskólans á Djúpavogi en hins vegar til byggingar þjónustuhúss fyrir áhaldamiðstöð og höfnina í þorpinu. Tæpar 45 milljónir fengust þó úr sjóðnum að þessu sinni eða 18% þess sem sótt var um.
Umsókn Múlaþings var um rúmar 118 milljónir króna til uppbyggingar leikskólans og rúmum 122 milljónum króna til að reisa nýtt áhaldahús sem jafnframt yrði þjónustumiðstöð fyrir höfnina á Djúpavogi.
Þessa niðurstöðu harmar umhverfis- og framkvæmdaráð sveitarfélagsins í nýlegri bókun en þetta þýðir að ekki er til nægt fjármagn til allra verkþátta sem til þarf vegna stækkunar leikskólans Bjarkatúns. Skipta þarf því verkþáttum meira niður en vonir stóðu til og sækja um á nýjan leik í Fiskeldissjóð á næsta ári.
Alls úthlutaði Fiskeldissjóður 465 milljónum króna til alls fimmtán verkefna í sjö sveitarfélögum landsins og fór því rétt tæplega 40% úthlutanna til austfirsku sveitarfélaganna að þessu sinni. Sjóðnum er ætlað að styrkja innviði þeirra sveitarfélaga þar sem sjókvíaeldi fer fram.
Lengi hefur verið þörf á stækkun leikskólans Bjarkatúns en aðeins hluti þess fjármagns sem til þarf fékkst úr Fiskeldissjóði að þessu sinni