Alls 20 hugmyndir um atvinnuuppbyggingu á Seyðisfirði

Alls bárust um 20 hugmyndir frá almenningi um framtíðar atvinnuuppbyggingu á Seyðisfirði en eftir slíku var óskað af hálfu Múlaþings í kjölfar ákvörðunar Síldarvinnslunnar í september að hætta alfarið starfsemi bolfiskvinnslunnar á staðnum með næsta vori.

Óskað var eftir öllum góðum hugmyndum sem hugsanlega gætu skapað heilsársstörf í bænum í stað þeirra starfa sem leggjast af með lokun bolfiskvinnslunnar. Sérstakur starfshópur sem samanstendur af fulltrúum frá Múlaþingi, Austurbrú, heimastjórn Seyðisfjarðar og Síldarvinnslunni fer yfir hugmyndirnar og ekki útilokað að þær hugmyndir sem vænlegasta þykja njóti fjárfestinga til að koma þeim á koppinn.

Snædís Snorradóttir, verkefnastjóri upplýsinga- og kynningarmála hjá Múlaþingi, segir starfshópinn hafa frumgreint þær hugmyndir sem sendar voru inn á mánudaginn í síðustu viku en óskað var eftir frekari gögnum frá nokkrum umsækjendum í kjölfarið. Hugmyndirnar sem á borð komu af ýmsu tagi eins og aukið lista- og menningarstarfsemi, ferðaþjónusta, landeldi og úrvinnsla afurða svo nokkuð sé nefnt.

Starfshópurinn fundar aftur í þessari viku og rýnir þær hugmyndir betur sem best þykja til þess fallnar að njóta styrks.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.