Alls staðar þörf á íbúðum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 03. maí 2022 14:54 • Uppfært 03. maí 2022 15:36
Frambjóðendur fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í Fjarðabyggð eru sammála um að hraða þurfi uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í sveitarfélaginu. Fulltrúar meirihlutans segja aðgerðir vera að bera ávöxt meðan áskorendurnir segja hlutina ganga of hægt.
Húsnæðismálin komu til tals á framboðsfundi á Fáskrúðsfirði í gærkvöldi. Íbúi vakti athygli á stöðu eldra fólks sem vildi komast í minna húsnæði. „Ég vil ekki flytja á Reyðarfjörð, Egilsstaði eða Norðfjörð. Ég hef engan áhuga á því,“ sagði viðkomandi.
Hún var reyndar ekki fyrst á fundinum til að koma inn á málið né heldur var þetta fyrsti fundurinn þar sem húsnæðismál hafa verið til umræðu. Guðbjörg Sandra Óðinsdóttir, frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins og íbúi á Fáskrúðsfirði, sagði í framboðsræðu sinni að Fáskrúðsfirðingar horfðu á eftir eldra fólki úr bænum því það vantaði búsetukosti.
Oddviti flokksins, Ragnar Sigurðsson, sagði húsnæðismálin helsta flöskuhálsinn í framþróun Fjarðabyggðar. Samhent átak atvinnulífs og sveitarfélags væri forsenda hraðrar og kröfugrar uppbyggingar.
Annar frambjóðandi frá Fáskrúðsfirði, Arnfríður Eide Hafþórsdóttir frá Framsóknarflokki, sagði í sinni ræðu að húsnæðisskorturinn væri stærsta áskorun sveitarfélagsins. Framboðið hefði það að stefnu að gefa eldra fólki kost á að flytja í smærra húsnæðis í sama póstnúmeri og það byggi nú.
Vinna með Bríeti og Brák
Frambjóðendur Framsóknar hafa annars hamrað á samkomulagi sem Fjarðabyggð hefur unnið að við opinberu húsnæðisfélögin Bríeti og Brák. Á Breiðdalsvík sagði Elís Pétur Elísson að sveitarfélagið myndi halda áfram vinnu Bríetar en jafnframt tryggja lóðir í öllum byggðakjörnum fyrir bæði nýja íbúa en einnig þá sem vildu minnka eða stækka við sig.
Oddvitinn og bæjarstjórinn Jón Björn Hákonarson sagði í gærkvöldi að það hefði verið farsæl ákvörðun að ganga inn í leigufélagið Bríeti. Það yrði vonandi til að skapa leigumarkað til framtíðar og hvetja til byggingu fleiri leiguíbúða. Eldar fólk gæti til dæmis leyst út fé úr sínum fateignum og farið í leigu. Úrræði Brákar eru síðan ætluð tekjulægri hópum. „Við sjáum gríðarlega þörf fyrir að koma að íbúðum. Ég held að það standi ekki á neinu framboði þar,“ sagði Jón Björn. Hann hafði áður sagt að engar töfralausnir væru á húsnæðismálum en verið væri að skoða lausnir með félögunum tveimur og verktökum.
Vonast til að fleiri verktakar sjái hag í framkvæmdum
Stefán Þór Eysteinsson, oddviti Fjarðalistans, kom einnig að samstarfinu við Bríeti og Brák og benti á að þegar væri búið að úthluta þeim lóðum sem vonandi verði fleiri. Áframhaldandi verkefni væri að tryggja íbúðir sem henti öllum og endurspegli fjölbreytileika samfélagsins. Hann hefur minnt á að afsláttur hafi verið gefinn af gatnagerðargjöldum til að reyna að liðka fyrir framkvæmdum.
Stefán Þór bætti við að hann hefði rætt við byggingaverktaka sem borið hefðu því við að mikið væri að gera og vart tími til að reisa íbúðarhús, sérstaklega þar sem söluandvirði dugi tæplega fyrir byggingarkostnaði. „Það er að breytast núna svo við sjáum fram á meira af einkaframtakinu.“
Fjölga dagvistunarúrræðum
Ragnar sagði Sjálfstæðisflokkinn vilja stuðla sérstaklega að íbúðum fyrir 65 ára og eldri. Með því að eldra fólk fari í minna húsnæði verði á sama tíma hægt að mæta mikilli eftirspurn eftir stærra húsnæði.
Hann kom einnig inn á dagvistunarúrræði fyrir aldraða sem eru sex í Fjarðabyggð, þar af fimm á Breiðdalsvík og eitt í Neskaupstað. „Þau gera fólki kleift að búa lengur heima hjá sér, hvort sem er í þjónustuíbúðum eða á eigin heimili. Þannig getum við þjónustað fólk lengur þar sem það vill búa áður en það fer á hjúkrunarheimili.“
Vantar framtíðarsýn
Anna Berg Samúelsdóttir frá Vinstrihreyfingunni – grænu framboði sagði alvarlega stöðu vera komna upp í húsnæðismálum á Austurlandi og vitnaði til nýlegra talna um að 74 íbúðir þyrfti árlega til að mæta þörfinni en helmingi færri væru í byggingu. „Það verður að telja ótrúlegt að staðan sé þessi. Hvar er framtíðarsýnin? Í raun vantar hana algjörlega og í það verður að fara strax.“
Hún hafði áður talað á svipuðum nótum á Breiðdalsvík. „Það er ófremdarástand í búsetumálum. Við erum alltaf að vinna í mótvindi. Við þurfum að þora að fara með meiri framtíðarsýn inn í þessi mál“
Í gær lýsti hún yfir áhuga til að kynnast nánar verkefninu Tryggð byggð, sem er verkefni á vegum ríkisins og tengist Bríeti. Anna Berg sagði óábyrgt að lofa nokkru ákveðnu úr ræðustólnum en skoða yrði máin ígrundað þótt ekki hefðu allir tíma til að bíða eftir langlokum.