Allt á kafi í snjó uppi við Snæfell

Landverðir í Snæfellsskála ráða fólki frá ferðum upp á svæðið vegna snjós sem safnast hefur fyrir undanfarinn sólarhring. Þar er allt orðið hvítt.

„Það hefur snjóað aðeins undanfarna í daga. Í gærdag bættist mikið við og síðan virðist hafa snjóað í alla nótt,“ segir Þuríður Skarphéðinsdóttir, landvörður Vatnajökulsþjóðgarðs í Snæfellsskála.

„Þetta er frekar mikill snjór. Það er allt hvítt uppi í Snæfelli,“ bætir hún við.

Landverðir voru á ferðinni með hóp erlendra ferðamanna á leið frá skálanum. Vegur F909 kallast Snæfellsleið og liggur frá aðalveginum á Fljótsdalsheiði inn fyrir Snæfell. Fólki er ráðlagt að leggja leið sína eftir Snæfellsleiðinni.

„Við mælumst til að fólk sé ekki hér á ferðinni. Það er mikil hætta á að týna veginum og þá geta myndast ljót för utan vega. Þess utan þá sést Snæfellið ekki. Hér er mjög lágskýjað, þoka og úrkoma,“ útskýrir hún.

Ástandið mun vera svipað á fleiri fjallvegum, til að mynda inn í Kverkfjöll. Samkvæmt yfirliti Vegagerðarinnar eru hálkublettir á Möðrudalsöræfum. Áfram er spáð kulda og úrkomu yfir helgina en á mánudag á að hlýna.

Mynd: Þuríður Skarphéðinsdóttir


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.