Allt á kafi í snjó uppi við Snæfell
Landverðir í Snæfellsskála ráða fólki frá ferðum upp á svæðið vegna snjós sem safnast hefur fyrir undanfarinn sólarhring. Þar er allt orðið hvítt.„Það hefur snjóað aðeins undanfarna í daga. Í gærdag bættist mikið við og síðan virðist hafa snjóað í alla nótt,“ segir Þuríður Skarphéðinsdóttir, landvörður Vatnajökulsþjóðgarðs í Snæfellsskála.
„Þetta er frekar mikill snjór. Það er allt hvítt uppi í Snæfelli,“ bætir hún við.
Landverðir voru á ferðinni með hóp erlendra ferðamanna á leið frá skálanum. Vegur F909 kallast Snæfellsleið og liggur frá aðalveginum á Fljótsdalsheiði inn fyrir Snæfell. Fólki er ráðlagt að leggja leið sína eftir Snæfellsleiðinni.
„Við mælumst til að fólk sé ekki hér á ferðinni. Það er mikil hætta á að týna veginum og þá geta myndast ljót för utan vega. Þess utan þá sést Snæfellið ekki. Hér er mjög lágskýjað, þoka og úrkoma,“ útskýrir hún.
Ástandið mun vera svipað á fleiri fjallvegum, til að mynda inn í Kverkfjöll. Samkvæmt yfirliti Vegagerðarinnar eru hálkublettir á Möðrudalsöræfum. Áfram er spáð kulda og úrkomu yfir helgina en á mánudag á að hlýna.
Mynd: Þuríður Skarphéðinsdóttir