Allt klárt fyrir Unglingameistaramót Íslands í Oddsskarði
„Spáin er góð, skíðafærið með því allra besta og allir hér eins undirbúnir eins og hægt er,“ segir Garðar Eðvald Garðarsson, hjá Skíðafélagi Fjarðabyggðar, en félagið heldur utan um Unglingameistaramót Íslands (UMÍ) sem hefst í Oddskarði á föstudag og stendur út helgina.
Rúmlega eitt hundrað keppendur taka þar þátt en allir eru þeir á aldrinum 12 til 15 ára. Heildarfjöldi gesta yfir þennan tíma verður því um eða yfir 200 manns alls að mati Garðars þegar foreldrar og aðrir gestir eru taldir með. Mestallt gistipláss í sveitarfélaginu er uppbókað þessa daga.
„Þetta er töluvert stórt í sniðum en við vel undirbúin og höfum verið að skipuleggja mótið frá síðasta hausti. Þetta hefst ekki nema með samvinnu allra sem að koma og sem betur fer er stærstur hluti okkar fólks orðið vant því að skipuleggja og starfa kringum slík mót.“
Keppt verður í svigi og stórsvigi eins og venjan er og lokadaginn verður keppni í samhliða svigi þar sem tveir keppa í einu niður sams konar leið.
Veðrið, sem oftar en ekki leikur aðalhlutverk í mótum sem þessum, verður með því betra samkvæmt spám Veðurstofu Íslands. Hæglætisvindur og lítilsháttar frost alla dagana en ágætar líkur á sólarglætu bæði laugardag og sunnudag.
Mynd: Frá Oddsskarði á góðum degi. Samkvæmt veðurspá helgarinnar er ágætar líkur á sól í brekkunum.