Allt meira og minna með felldu á Eskifirði

Björgunarsveitarmenn á Eskifirði hafa verið að taka stöðuna í og við bæinn síðan snemma í morgun. Þrátt fyrir vatnavexti hafa engin vandamál komið upp enn sem komið er.

Það staðfestir Sævar Guðjónsson sem hefur rúntað um síðan snemma í morgun og tekið stöðuna en það var í Eskifirði þar sem mesta rigningin mældist í nótt eða alls um 66 mm síðan á miðnætti.

„Það er nú allt með felldu. Auðvitað aukið vatnsmagn alls staðar en ekkert til að hafa áhyggjur af á þessu stigi. Það eina sem er í frásögur færandi er að það hefur aðeins flætt yfir veginn hér innan við Útstekk en það er lítilræði.“

Sævar segir að enn rigni töluvert og spár gera ráð fyrir áframhaldi á því út daginn áður en að stytta fer nokkuð upp með kvöldinu.

„Það merkilegasta við nóttina fannst mér kannski vera hversu hvasst gerði með þessu en það mældust hviður hér upp í 30 metra á sekúndu. En auðvitað er líka dálítið bratt að fá svona dembu þegar varla hefur rignt dropa hér í þrjá mánuði eða svo.“

Bleiksárfossar æði voldugir snemma í morgun þegar Sævar átti leið þar hjá og tók þessa mynd. Árnar eru að mestu tærar við Eskifjörð að hans sögn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.