Skip to main content

Alltaf alvarlegt ef sjúkraflug getur ekki lent í Reykjavík

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 28. nóv 2023 12:48Uppfært 28. nóv 2023 12:51

Framkvæmastjóri lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands segir það alltaf alvarlegt ef sjúkraflug geti ekki lent í Reykjavík því þangað séu þeir sjúklingar sendir sem mestrar þjónustu þarfnist. Sjúkraflugvél frá Austurlandi varð frá að hverfa vegna hvassviðris síðasta þriðjudag.


Það var Akureyri.net sem greindi fyrst frá málinu. Um borð í vélinni voru tveir sjúklingar sem fóru með sjúkrafluginu frá Egilsstöðum og einn alla leið frá Akureyri. Þeir voru á leið á Landsspítalann.

Haft er eftir Leifi Hallgrímssyni, framkvæmdastjóra Mýflugs sem annast sjúkraflug, að hliðarvindur hafi verið of mikill miðað við öryggismörk flugvélarinnar auk þess sem ókyrrð hafi verið mikil. Þess vegna hafi flugstjóri vélarinnar ekki talið óhætt að reyna lendingu.

Þar segir Leifur einnig að bygging hárra húsa í nágrenni flugvallarins síðustu ári hafi skapað hliðarvindinn. Hins vegar hefði verið hægt að lenda ef suðvestur-norðvesturbraut vallarins væri enn til staðar, oft kölluð neyðarbrautin.

Henni var endanlega lokað árið 2017, að undangengnum dómi Hæstaréttar um samkomulag ríkisins og Reykjavíkurborgar frá 2013 þar um vegna fyrirhugaðrar íbúabyggðar í grenndinni. Samkvæmt áhættumati var nýtingarhlutfall vallarins talið lækka um 1 prósentustig, niður í 97% við lokunina.

Verið að senda veikt fólk á öflugustu stofnunina


Pétur Heimsson, framkvæmdastjóri lækninga hjá HSA, segir erfitt að veita upplýsingar um einstök atvik. Hins vegar sé alltaf vont þegar ekki sé hægt að koma sjúklingum til Reykjavíkur því þangað séu þeir ekki sendir nema þess þurfi.

„Í þau örfáu skipti sem ekki er hægt að lenda þar þá er alltaf alvarlegt að mínu mati. Undantekningarlaust er fyrsti kostur okkar að leggja sjúklinga inn á Sjúkrahúsið á Akureyri. Fólk sem sent er með sjúkraflugi er það veikt að verið er að flytja það á sérhæfðustu sjúkrastofnun landsins,“ segir hann.

Sjaldgæf tilvik


Hjá Isavia er ekki haldið utan um skráð tilvik þar sem er ekki er talið hægt að lenda. Í svari við fyrirspurn Austurfréttar er bent á að flugvöllum á Íslandi sé tæknilega séð aldrei lokað. Hins vegar geti aðstæður skapast sem takmarki þjónustu og síðan taki flugrekendur sínar ákvarðanir meðal annars með tilliti til veðurupplýsinga. Ákvörðun um að hætta við lendingu sé alltaf flugfélags eða flugstjóra.

Samkvæmt svari Willum Þórs Þórssonar, heilbrigðisráðherra, við fyrirspurn Guðrúnar Hafsteinsdóttur á Alþingi í vor lentu 556 sjúkraflug í Reykjavík í fyrra. Af starfssvæði Heilbrigðisstofnunar Austurlands voru farin um 190 flug, eða um fjórðungur allra ferða sem voru alls 888. Skilgreint neyðarflug, í forgangi F1-F2, hefur verið tæpur helmingi fluganna. Flugið fyrir viku var í næst hæsta forgangi eða F2.

Í samtali við Austurfrétt segir Leifur að þetta sé í fyrsta sinn sem hætta þurfi við lendingu sjúkraflugs í Reykjavík eftir að brautinni var lokað. Hins vegar komi upp 3-5 tilvik á ári þar sem ekki sé lagt af stað í veðrum þar sem brautin hefði komið að notum því útséð sé að vindur sé þannig að ekki sé hægt að lenda.

Í síðustu viku hafi hvessti meðan vélin var á leiðinni suður. Þegar nálgaðist lendingu hafi orðið ljóst að ekki yrði lent og þá hafi þurft að taka skjóta ákvörðun sem var að snúa til Akureyrar. Því var ekki athugað með möguleika á að fljúga til Keflavíkur í þessu tilfelli. Leifur nefnir þó að fyrir tveimur árum hafi læknar á Akureyri lagst gegn því að fljúga þangað með gjörgæslusjúkling þar sem við flugið myndi bætast ferð með sjúkrabíl eftir Reykjanesbraut.