Skip to main content

„Alltaf sagt þetta væri ástríðuverkefni“

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. des 2023 14:17Uppfært 13. des 2023 14:19

Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir, tónskáld úr Fellabæ, er annar helmingur dúósins Ingibjargir sem í síðasta mánuði sendi frá sér hljómplötuna „Konan í speglinum.“ Hún inniheldur lög sem Ingibjörg Ýr hefur unnið og samið með nöfnu sinni, Ingibjörgu Fríðu Helgadóttur við ljóð Ingibjargar Haralds. Ingibjörg Ýr segir ánægjulegt að platan sé í höfn eftir hátt í tíu ára ferli.


„Við Ingibjörg Fríða kynntumst í Listaháskólanum þar sem við byrjuðum í námi árið 2013. Ég í tónsmíðum en hún í skapandi tónlistarmiðlum. Við komumst að því við værum báðar að grúska í ljóðum Ingibjargar Haralds.

Í lok hverrar annar eru tónleikar með verkum tónsmíðanema. Við fluttum tvö lög sem eru á plötunni. Þannig byrjaði þetta,“ segir Ingibjörg Ýr.

Lögin undu upp á sig því Ingibjargirnar fundu sterka tengingu við nöfnu sína, ljóðskáldið. „Ég hef alltaf vitað af henni. Hún þýddi rússnesk ævintýri og eina uppáhalds bókina mína þegar ég var barn.

Þegar ég byrjaði í tónsmíðanáminu fór ég að grúska í ljóðunum til að semja við. Ég skoðaði ýmis skáld og datt niður á hana. Ég tengdi samt ekki strax við hana.

Mér fannst hún þó dularfull. Hún lærði í Rússlandi, kynntist þar fyrri eiginmanni sínum sem var frá Kúbu og flutti þangað með honum. Þau skilja síðan og hún flytur aftur heim til Íslands. Hún yrkir um að vera langt í burtu og sakna Íslands, en líka að koma heim og þá er hversdagsleikinn sá sami. Ég bjó í Malaví sem unglingur og fann tengingu við þetta.

Þegar við vorum að vinna plötuna vorum við báðar að eignast börn. Hún yrkir líka um hvernig er að vera vinnandi móður og listakona. Síðan skrifar hún um verkalýðsbaráttu, stríð og ýmislegt annað.

Þegar við vorum að ganga frá plötunni þá fórum við yfir alla textana. Ljóðasafnið hennar er til allt í einni bók og ég fór alltaf að tengja við fleiri ljóð, verandi komin á annan stað í lífinu en áður,“ segir Ingibjörg Ýr.

Fengið fallegar viðtökur


Gerð plötunnar hefur verið langt og mikið ferli. Á sínum tíma voru þær komnar vel á veg, búnar að fá styrki til að taka upp og halda tónleika með verkunum í Hörpu. „Tveimur vikum eftir tónleikana fór ég í heilaskurðaðgerð eftir að það fannst æxli. Síðan varð ég ólétt sem frestaði batanum og öllu saman.“

Þess vegna er Ingibjörg Ýr afar ánægð með að platan sé núna í höfn. „Það er ótrúlega gaman. Við sögðum alltaf að þetta væri hrein ástríðuverkefni. Við bjuggumst ekki við að aðrir en okkar nánasta fjölskylda keypti plötuna en við höfum fengið ótrúlega fallegar og góðar viðtökur.“

Æfði sig á langspil á Þjóðlagasafninu


Ingibjörg lýsir tónlistinni sem mínímalískri þar sem ljóðið sé í forgrunni. Ingibjörg Fríða syngur en Ingibjörg Ýr leikur undir á ýmis hljóðfæri, meðal annars langspil. „Sumarið 2016 eftir að ég útskrifaðist úr Listaháskólanum vann ég á Þjóðlagasetrinu á Siglufirði.

Það komu fáir á safnið þannig ég var oft ein þar klukkutímum saman. Í stofunni er bæði langspil og íslensk fiðla sem ég gat æft mig á. Eftir sumarið fékk ég smið til að gera handa mér langspil. Mér finnst það hafa mjög einkennandi tón sem ég tengi við þjóðlagatónlist.“

Þær héldu útgáfutónleika í Reykjavík um miðjan nóvember. Þar var jafnframt varpað upp vatnslitamyndum Önnu K. Ein sem blandast í tónlistina. Ingibjargirnar eru ekki með staðfesta tónleika á Austurlandi en þær verða með kynningu og sölu á plötunni á jólamarkaði Jólakattarins á Egilsstöðum á laugardag. „Við erum mjög stoltar af þessu verki,“ segir Ingibjörg Ýr að lokum.

Mynd: Sigga Ella