Almannaskarðsgöng lokuð seinni partinn á morgun
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 03. nóv 2023 13:22 • Uppfært 03. nóv 2023 13:23
Almannaskarðsgöng verða lokuð vegna æfingar slökkviliðs á milli klukkan 17 og 20 á morgun. Viðbúið er að það geti valdið töfum á umferð milli Djúpavogs og Hafnar í Hornafirði.
Göngin voru opnuð sumarið 2005 og leystu þá af hólmi hættulegan fjallveg yfir Almannaskarð. Hann er nú lokaður og þess vegna engin önnur leið fær en um göngin. Það þýðir að leiðin milli Djúpavogs og Hafnar og þar með Hringvegurinn verður lokaður í þrjá tíma á morgun.
Færðin á Austurlandi ber þess merki að komið er fram í nóvember. Hált er á Jökuldal, Vopnafjarðarheiði, Möðrudalsöræfum, yfir Vatnsskarð og Fjarðarheiði, þæfingur á Mjóafjarðarheiði en snjóþekja á Öxi og Breiðdalsheiði.
Samkvæmt nýjum tölum frá Vegagerðinni heldur umferð á landinu áfram að aukast. Á Austurlandi jókst umferð um 8,5% á Austurlandi frá því í sama mánuði fyrir ári. Uppsöfnuð aukning yfir árið er 5,4%. Útlit er fyrir að algjört metár verði í umferð um Hringveginn.
Mynd: Wikimedia