Skip to main content

Almenn ánægja með snjómokstur í Múlaþingi en betur má þó gera

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. jún 2023 14:32Uppfært 20. jún 2023 14:42

Síðastliðinn vetur tókst að bæta vetrarþjónustu í dreifbýlinu töluvert frá fyrra ári samkvæmt niðurstöðum íbúafunda sem heimastjórn Fljótsdalshéraðs hélt á nokkrum stöðum snemma í vor. Þó má enn bæta ýmislegt.

Liðinn vetur var snöggtum umhleypingarsamari en veturinn þar á undan sem kann að hafa gert það auðveldara að halda vegum opnum og hálkulausum. Í öllu falli eru margir þeir sem mættu á umrædda íbúafundi á þeirri skoðun að mun betur hafi tekist til liðinn vetur og ánægjan almenn. Ein stærsta ástæða þess talin vera að Vegagerðin fékk meðal annars bændur á ýmsum svæðum til að ryðja sjálfir ýmsa vegina snemma morguns.

Að sögn Ásgríms Inga Arnsgrímssonar, skólastjóra Brúarásskóla, gekk mun betur að opna vegina þar í kring en verið hefur áður. Sérstaklega hafi verið vel mokað og sandað alla leið að skólanum úr öllum áttum. Þá fáu daga sem börnin komust ekki í skólann hafi verið veðri um að kenna fremur en færð.

Ýmsar gagnrýnisraddir heyrðust þó á fundunum. Skortur þótti á vegaþjónustu inn í Stuðlagil en þangað sækja ferðamenn nú allan ársins hring. Á sama svæði þótti mörgum miður að snjómokstursbílar væru á ferð seint á daginn eða jafnvel á kvöldin og það í skafrenningi. Slík vinnubrögð væru kjánaleg því fáir sem engir væru á ferð og auðvitað orðið kolófært strax næsta morgunn.

Veturinn 2021 til 2022 var mikil óánægja með snjómokstur í dreifbýli Múlaþings. Heldur var bætt um betur síðasta vetur. Mynd Vegagerðin