Skip to main content

Almenningssamgöngur tryggðar til Borgarfjarðar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. jún 2025 16:55Uppfært 02. jún 2025 16:56

Reglulegar almenningssamgöngur milli Egilsstaða og Borgarfjarðar eiga að vera tryggðar næstu tvö árin. Styrkur til að halda þeim úti fékkst úr sérstakri úthlutun á vegum innviðaráðuneytisins.


Styrkurinn nemur 17 milljónum króna og er sá langhæsti af þeim fjórum sem veittir eru í ár af sérstökum lið byggðáætlunar sem ætlaður er til að styðja við þróun almenningssamganga milli byggða.

Síðasta sumar tilkynnti Vegagerðin að hún ætlaði ekki að halda áfram stuðningi við akstur á leiðinni. Meðal þeirra sem skýringa sem gefnar voru var að samgöngur innan sveitarfélaga væru á ábyrgð sveitarfélaga, ekki ríkisins.

Framlag Vegagerðarinnar féll niður um síðustu áramót. Frá þeim tíma hafa verið ferðir milli Egilsstaða og Borgarfjarðar en ekki hefur verið hægt að stóla á þær alla virka daga eins og áður en reglubundinn akstur á milli hófst árið 1996.

Ferðir byggja á fragt


Akstursaðilinn hefur einnig þjónustað flutningafyrirtæki og því hefur undanfarna mánuði forsendan verið sú að farmur væri á Borgarfjörð þannig keyrt væri þann daginn og farþegar þá teknir með. „Að hámarki hafa verið fjórar ferðir í viku. Ferðir á mánudögum hafa fallið niður og mögulega fleiri ef flutningur hefur verið lítill,“ útskýrir Alda Marín Kristinsdóttir, fulltrúi sveitarstjóra Múlaþings á Borgarfirði.

Heimastjórn Borgarfjarðar hefur lýst áhyggjum af málinu. Eftir fund með fulltrúa innviðaráðuneytisins í vor var ákveðið að sækja um styrk. Sótt var um hærri upphæð en fékkst en stefnt var að því að tryggja samgöngurnar til næstu tveggja ára. Alda Marín segir að skoða þurfi nánar hvernig útfærslan verði.

Vilja tryggja fjármagn til framtíðar


Í umsögn ráðuneytisins segir að styrkurinn sé veittur til fólksflutninganna og til að bregðast við því að Vegagerðin hafi fellt sinn styrk niður. Alda Marín vonast til að hægt verði að vinna að framtíðarlausn á þeim tíma sem styrkurinn er ætlaður til.

„Hugmyndin er að brúa bilið á meðan fundinn er góður staður fyrir almenningssamgöngurnar hér í kerfinu til framtíðar. Við höfum ekki verið að biðja um fleiri ferðir, heldur áreiðanlegar almenningssamgöngur eins og þær hafa verið undanfarin 30 ár.“