Alþingi staðfesti varaflugvallargjald

Alþingi staðfesti á föstudag, áður en það fór í sumarfrí, lög um 200 króna varaflugvallagjald sem ætlað er til að byggja upp flugvelli á Íslandi. Uppbygging á Egilsstaðaflugvelli hefur þar verið talin forgangsmál en áætlað er að ráðast þurfi í framkvæmdir upp á 16 milljarða til að bæta úr uppsafnaðri þörf. Þingmenn Norðausturkjördæmis fögnuðu samþykktinni.

Það var Ingibjörg Isaksen, fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis, sem mælti fyrir málinu en það hefur verið til meðferðar hjá umhverfis- og samgöngunefnd síðustu vikur.

Varaflugvallargjaldið felur það í sér að frá og með 1. nóvember næstkomandi er flugfélögum skylt að innheimta 200 króna gjald af hverjum farþega yfir tveggja ára og eldri sem flýgur um íslenska flugvelli. Gjaldinu er ætlað að kosta framkvæmdir á flugvöllum hérlendis en Isavia, sem rekur íslensku flugvellina, telur uppsafnaða viðhaldsþörf nema 16 milljörðum króna.

Reykjavíkurflugvöllur líka mikilvægur


Í máli Ingibjargar kom fram að við meðferð málsins hefði verið gagnrýnt að gjaldinu væri fyrst og fremst ætlað að fjármagna framkvæmdir á Akureyri og Egilsstöðum, en vellirnir, einkum á Egilsstöðum, hafa verið settir í forgang þar sem þeir eru í öðru veðurkerfi en Keflavíkurflugvöllur. Á móti hefur Reykjavíkurvöllur í dag meira pláss fyrir vélar. Nefndin telur þó mikilvægt að Reykjavíkurvöllur sé talinn upp sem mikilvægur varaflugvöllur, enda sé fyrirséð að hann verði áfram á sínum stað næstu 25-30 ár.

Ingibjörg sagði þó almennt tekið undir að fullnægjandi varaflugvellir væru til staðar. Því hefði verið haldið fram að slík skattheimta tíðkaðist ekki í Evrópu en hins vegar væri staðreyndin sú að Ísland væri eitt fárra landa álfunnar sem ekki legði sérstaka skatta á flug.

Losar um fé fyrir aðra flugvelli


Varaflugvallargjald var hérlendis fram til sumars 2011. Í áliti minnihluta nefndarinnar er bent á að ætlast hafi verið til þess að Isavia bætti sér upp tekjutapið með að hækka gjaldskrá sína en það hafi ekki orðið.

Undanfarin ár hefur ríkið lagt Isavia til 2,5 milljarða á ári sem ætlaðir eru í daglegan rekstur og viðhald annarra flugvalla en Keflavíkur. Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, benti á að um 350 milljónir hefðu farið í viðhald, um milljarði minna en áður en gjaldið var lagt af. Þá þýði gjaldheimta sérstaklega fyrir varaflugvellina að ríkisframlagið til Isavia nýtist í aðra velli.

Njáll hvatti til þess að sem fyrst yrðu hafnar framkvæmdir á norðurenda Egilsstaðaflugvallar við akbraut þannig hægt sé að taka þar við fleiri vélum. Hann sagði það tryggja öryggi í flugvallarkerfinu öllu.

Þingmenn Norðausturkjördæmis samstíga


Njáll Trausti, Ingibjörg og fleiri þingmenn Norðausturkjördæmis tóku til máls við atkvæðagreiðsluna á föstudagskvöld til að fagna því að málið væri í höfn. „Gjaldið hefur lengi verið baráttumál þeirra sem horfa á mikilvægi heildstæðs flugvallarkerfis. Þetta er eitt þeirra mála sem við þingmenn Norðausturkjördæmis höfum verið samstíga um síðan ég settist á þing árið 2013,“ sagði Líneik Anna Sævarsdóttir, Framsóknarflokki.

Jódís Skúladóttir, Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, sagði um að ræða mikilvægt öryggis- og almenningssamgangamál fyrir bæði landsmenn og gesti sem fagnað væri þvert á flokka. Hún notaði hins vegar tækifærið til að minnast á kostnað við innanlandsflug.

„Þrátt fyrir uppbygginguna skýtur skökku við að jafnvel tekjuháir einstaklingar hafi ekki efni á að versla flugmiða í innanlandsflugi, hvað þá tekjulágir sem mögulega þurfa lífsnauðsynlega á því að halda. Það þurfum við að hugleiða.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.