Skip to main content

Alvöru gusa á loðnumiðunum við Langanes

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 28. jan 2022 08:56Uppfært 28. jan 2022 08:56

„Hér er komin alvöru gusa og töluvert mikið að sjá,“ segir Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri á Berki í samtali á vefsíðu Síldarvinnslunnar. Þegar samtalið var tekið var Börkur á loðnumiðunum norðaustur af Langanesi í gærdag.

“Við erum að veiðum um 50 mílur norðaustur af Langanesi og hér eru íslensku skipin og einnig grænlensku skipin Polar Amaroq og Polar Ammasak. Við vorum að enda við að dæla 590 tonnum og hér er fínasta veiði,“ segir Hjörvar.

„Hér er komin alvöru gusa og töluvert mikið að sjá. Við erum komnir með 2.840 tonn um borð og vonandi þurfum við bara eitt hol í viðbót til að fylla. Hér er bjart yfir mönnum.”

Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti, tekur undir með Hjörvari og segir að veiðin sé góð.


“Við komum á miðin í nótt eftir að hafa landað 2.500 tonnum í Neskaupstað. Við erum búnir að taka tvö hol, eitt þriggja tíma og eitt átta tíma, og komnir með 600 tonn. Loðnan sem fæst er falleg og stærri en við höfum verið að fá að undanförnu. Mér list þrusuvel á framhaldið; það er verið að veiða loðnu út um allt hérna, það er ekki verið að veiða úr einni göngu,” segir Tómas.

Mynd: Börkur NK að veiðum á loðnumiðunum norðaustur af Langanesi. Ljósm. Helgi Freyr Ólason/svn.is