Skip to main content

Ánægjubros á vörum skógarbænda eftir áherslubreytingar Múlaþings vegna skógræktarsvæða

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 15. sep 2025 15:28Uppfært 15. sep 2025 15:37

Í fyrstu tillögum að gerð nýs aðalskipulags Múlaþings vakti það hroll hjá mörgum skógarbóndanum að þar kvað á um að öll nýskógrækt sem næði yfir stærra svæði en 50 hektara yrði háð því að svæðið væri þegar afmarkað sem skógræktar- og landgræðslusvæði. Í kjölfar hundruða athugasemda vegna þessa hefur byggðaráð sveitarfélagsins nú samþykkt að miðað verði við 200 hektara en ekki 50 eins og lagt var af stað með í upphafi.

Vinna við nýtt aðalskipulag Múlaþings lengi staðið yfir en í mörg horn er að líta hvað slíkt varðar enda eiga slík plögg að vera viti sveitarfélagsins til langs tíma varðandi stefnu og ákvarðanir um framtíðarnotkun lands og fyrirkomulag byggðar.

Ólíkt því sem samþykkt hefur verið víðast hvar annars staðar í landinu gerðu upphaflegar tillögur ráð fyrir 50 hektara takmörkunum á nýskógrækt á Héraði, sem er ein búsældarlegasta sveit landsins, en ekki 200 hekturum eins og önnur sveitarfélög hafa samþykkt hin síðari ár.

Mikil sátt

Þessi breyting hefur farið vel niður í meðlimi Félags skógarbænda á Austurlandi að sögn formannsins Lilju Sigurðardóttur. Félagsmenn séu almennt mjög sáttir.

„Ég er búin að ræða við allmarga félagsmenn og menn eru sammála um að þetta sé mjög góð niðurstaða fyrir alla sem að skógrækt koma. Þessar breytingar nú eru í raun þær sem við félagsmenn gerðum kröfu um í athugasemdum sem við mörg sendum inn vegna nýja aðalskipulagsins. Við fengum reyndar aldrei svör við neinum þeirra en svo virðist sem tillit hafi verið tekið til andmæla okkar og það er mjög af hinu góða. En það voru vissulega mjög margir í hópnum okkar afar ósáttir við þessar fyrstu tillögur.“

Lilja segir ósköp eðlilegt að skógrækt sé vel skipulögð í aðalskipulagi hvers sveitarfélags og þá ekki hvað síst þar sem skógrækt er þegar viðamikil á Héraði öllu. Slíkt þurfi þó að gera í góðri samvinnu við alla íbúa.

„Ég veit sem er að mjög margir í okkar hópi skiluði inn athugasemdum á sínum tíma vegna þessa. Nú skal ég ekkert fullyrða um hvort fortölur okkar hafa valdið þessari breytingu en hún sannarlega mjög af hinu góða og við öll meira og minna sátt.“

Samþykkt Byggðaráðs frá því fyrr í mánuðinum segir orðrétt: „[...]við gerð tillögu nýs Aðalskipulags Múlaþings verði mörkuð sú stefna að ný skógræktaráform sem nái til 200 ha. eða stærra svæðis séu háð því að svæðið sé afmarkað sem skógræktar og landgræðslusvæði (SL). Nýskógrækt á reitum sem eru undir 200 ha. að stærð eru ekki færðir inn á aðalskipulagsuppdrátt ef þeir falla að ákvæðum um skógrækt á landbúnaðarsvæðum (L). Skógrækt á landbúnaðarlandi umfram 10 ha. er framkvæmdaleyfisskyld og skal þá skila inn ítarlegri ræktunaráætlun ásamt uppdrætti sem gerir grein fyrir umfangi framkvæmdar.