Andlát: Einar Kjerúlf Þorvarðarson

Einar Kjerúlf Þorvarðarson, fyrrverandi umdæmisstjóri Vegagerðarinnar á Austurlandi, lést á Umdæmissjúkrahúsi Austurlands í Neskaupstað föstudaginn 2. ágúst síðastliðinn, 80 ára að aldri.

Einar fæddist á Akranesi 16. mars 1944. Hann var sonur hjónanna Önnu Einarsdóttur húsmóður og Þorvarðar Kjerúlf Þorsteinssonar, síðar sýslumanns á Ísafirði.

Einar ólst upp í Reykjavík til tíu ára aldurs en ólst síðan upp hjá afa sínum og ömmu á Reyðarfirði, Þorsteini Jónssyni kaupfélagsstjóra og Sigríði Kjerúlf Þorvarðardóttur húsmóður í Hermes.

Einar gekk í barnaskóla í Reykjavík og á Reyðarfirði og lauk síðan landsprófi á Eiðum á Héraði 1961. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1964 og lauk verkfræðinámi frá Háskóla Íslands 1968. Hann fór síðan til framhaldsnáms til Svíþjóðar og lauk meistaraprófi í byggingarverkfræði frá Konunglega tækniháskólanum í Stokkhólmi 1971. Einnig nam hann við Tækniháskólann í Kaupmannahöfn 1981 og við háskólann í Bath í Englandi 1987.

Þegar heim kom 1971 hóf Einar strax störf hjá Vegagerð ríkisins sem umdæmisverkfræðingur á Austurlandi, með starfsstöð á Reyðarfirði, um það leyti sem framkvæmdir voru að hefjast við Oddsskarðsgöngin. Hann sinnti því starfi alla sína starfsævi. Á hans starfstíma urðu mestu samgöngubætur á Austurlandi sem orðið hafa frá upphafi, m.a. lokatenging hringvegarins um Skeiðarárbrú árið 1974.

Eftir að starfsævinni lauk tók hann oft að sér leiðsögn fyrir ferðamenn víða um Austurland, enda var hann einstaklega átthagafróður og víðlesinn um sögu og landshagi. Einar var mikill áhugamaður um bridds og skák, hann ferðaðist víða og dvaldi síðustu árin vetrarlangt á Kanaríeyjum.

Eftirlifandi eiginkona Einars er Erla Sigríður Hjaltadóttir. Hann lætur einnig eftir sig þrjú uppkomin börn, og sex barnabörn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.