Annað árið í röð var Áki í Brekku frá Breiðdalsvík aflahæsti handfærabáturinn

Handfærabáturinn Áki í Brekku SU 760, sem útgerðarfyrirtækið Gullrún á Breiðdalsvík gerir út, toppaði aflalista slíkra báta annað árið í röð á liðnu ári þrátt fyrir að gera aðeins út að sumarlagi.

Samkvæmt árslista Aflafrétta 2023 náðust tæp 127 tonn af afla um borð í Áka á síðasta ári eða tæplega 10 tonnum meira en næsti handfærabátur á þeim lista. Þó útgerð Áka sé á Breiðdalsvík gera skipverjar mest út frá Hornafirði hvert sumar og þá sérstaklega á ufsa.

„Það er rétt að við gerum bara út á sumrin og aðallega á ufsann,“ segir Elís Pétur Elísson, eigandi Gullrúnar, aðspurður út í þetta góða gengi.

„Það helgast af því að það er aðgengilegt að komast í kvóta á ufsa og þess vegna gerum við út með fókus á þann fisk. Það munum við aftur gera í sumar. Báturinn er í þessum töluðu nýkominn á Siglufjörð í vélarskipti, því verki ætti að ljúka í byrjun apríl og þá verður tekið á því. En ufsinn er líkast til helsta ástæða þess hve ofarlega við erum á þessum listum. Þeir eru tiltölulega fáir bátarnir sem gera út á ufsann eða færabátar sem gera út á kvóta. Langstærsti hluti þessara báta er að gera út á strandveiðina og þá eru menn almennt að fara mun fleiri ferðir.“

Stefnt á Íslandsmet

Elís segir að skipverjar á Áka hafi fyrir næsta sumar sett sér lítið eitt sérstakt markmið sem sé að setja Íslandsmet í sumar. „Það er í þessu eins og öðru að það skiptir öllu máli að hafa gott, vant fólk um borð sem gjörþekkir miðin og það hefur okkur tekist. Þeir hafa orðað að slá Íslandsmet í sumar en ég veit ekki nákvæmlega hvað þeir sjá fyrir sér í því. Mig grunar að það sé nú erfitt að slá Íslandsmet á færi þessa dagana því á árum áður voru tiltölulega stórir bátar á færaveiðum ólíkt því sem nú gerist. Strákarnir þurfa því að skilgreina nákvæmlega hvers konar Íslandsmet þeir hyggjast bæta.“

Báturinn fengsæli í heimahöfn á Breiðdalsvík. Mynd Goðaborg

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.