Annað árið í röð var maí með þeim allra hlýjustu á Egilsstöðum

Samkvæmt niðurstöðum Veðurstofu Íslands um liðinn maímánuð reyndist meðalhitastig á Egilsstöðum 7,6°C og reynist vera fjórði hlýjasti maímánuður þar frá upphafi mælinga. Sami mánuður fyrir ári reyndist sá annar hlýjasti í 70 ára mælingarsögu þegar meðalhitinn náði 8,1°C.

Egilsstaðir skera sig þetta árið aðeins úr frá öðrum þekktum mælingarstöðum á borð við Teigarhorn og Dalatanga. Á síðasta ári var meðalhitastig á síðarnefndu stöðunum í maí einnig í miklum hæðum miðað við söguna. Á Dalatanga var maí í fyrra sá fjórði hlýjasti í 86 ára veðursögu og sá áttundi hlýjasti að Teigarhorni en þar ná veðurfarsmælingar 152 ár aftur í tímann. Þetta árið eru meðaltalstölur beggja staða ofarlega í maí en þó einu til tveimur stigum lægri en á Egilsstöðum.

Varað við leysingum og grjóthruni

Leiðindatíðin í byrjun þessa mánaðar hefur nú vikið fyrir töluverðum hlýindum sem eiga að standa út helgina. Lítillega á þó að kólna að nýju á Þjóðhátíðardaginn á mánudaginn kemur þó áfram verði nokkuð sólríkt í öllum fjórðungnum.

Ofanflóðadeild Veðurstofunnar hefur birt viðvörun um hættur á skriðum og jafnvel grjóthruni úr fjöllum norðan- og austanlands samfara hlýindum enda er töluverður snjór enn til staðar eftir vetrarhretið í byrjunar mánaðarins. Ekki er þó talin nein hætta í byggð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.