Annað árið í röð var maí með þeim allra hlýjustu á Egilsstöðum
Samkvæmt niðurstöðum Veðurstofu Íslands um liðinn maímánuð reyndist meðalhitastig á Egilsstöðum 7,6°C og reynist vera fjórði hlýjasti maímánuður þar frá upphafi mælinga. Sami mánuður fyrir ári reyndist sá annar hlýjasti í 70 ára mælingarsögu þegar meðalhitinn náði 8,1°C.
Egilsstaðir skera sig þetta árið aðeins úr frá öðrum þekktum mælingarstöðum á borð við Teigarhorn og Dalatanga. Á síðasta ári var meðalhitastig á síðarnefndu stöðunum í maí einnig í miklum hæðum miðað við söguna. Á Dalatanga var maí í fyrra sá fjórði hlýjasti í 86 ára veðursögu og sá áttundi hlýjasti að Teigarhorni en þar ná veðurfarsmælingar 152 ár aftur í tímann. Þetta árið eru meðaltalstölur beggja staða ofarlega í maí en þó einu til tveimur stigum lægri en á Egilsstöðum.
Varað við leysingum og grjóthruni
Leiðindatíðin í byrjun þessa mánaðar hefur nú vikið fyrir töluverðum hlýindum sem eiga að standa út helgina. Lítillega á þó að kólna að nýju á Þjóðhátíðardaginn á mánudaginn kemur þó áfram verði nokkuð sólríkt í öllum fjórðungnum.
Ofanflóðadeild Veðurstofunnar hefur birt viðvörun um hættur á skriðum og jafnvel grjóthruni úr fjöllum norðan- og austanlands samfara hlýindum enda er töluverður snjór enn til staðar eftir vetrarhretið í byrjunar mánaðarins. Ekki er þó talin nein hætta í byggð.