Anton Berg sækist eftir varaformannsembætti SUS
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 15. sep 2025 11:21 • Uppfært 15. sep 2025 11:21
Anton Berg Sævarsson frá Eskifirði tilkynnti í morgunn framboð sitt til embættis 2. varaformanns Sambands ungra Sjálfstæðismanna (SUS).
Anton Berg er 21 árs gamall og stundar nám í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík. Hann hefur áður lokið sveinsprófi í húsasmíði með viðbótarstúdentsprófi frá Verkmenntaskóla Austurlands.
Anton er formaður Hávarrs, félags ungra sjálfstæðismanna í Fjarðabyggð, gegnir formennsku í kjördæmisráði ungra sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi og tók sæti í stjórn SUS í ár. Hann hefur verið virkur í starfi Sjálfstæðisflokksins á Austurlandi sem og á landsvísu, en hann heldur einnig úti eigin rekstri í skemmtanahaldi.
„SUS er næst stærsta stjórnmálahreyfing landsins á eftir Sjálfstæðisflokknum. Að ég best veit yrði ég fyrsti Austfirðingurinn frá stofnun SUS árið 1930 sem tekur sæti í forystu sambandsins og það væri mér mikill heiður og stórt skref í því að rödd ungs fólks af landsbyggðinni heyrist skýrar,“ segir í tilkynningu hans.
Anton Berg tilkynnti um framboðið um leið og Júlíus Viggó Ólafsson og Tinna Eyvindardóttir tilkynntu sín framboð, til formanns og 1. varaformanns. Kosið verður á þingi sambandsins sem haldið verður í Reykjavík fyrstu helgina í október.