Appelsínugul veðurviðvörun á mánudagsmorgun
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 05. feb 2022 17:52 • Uppfært 05. feb 2022 17:53
Appelsínugul veðurviðvörun hefur verið gefin út fyrir allt landið, þar með talið veðurspásvæðin Austurland að Glettingi og Austfirði á mánudagsmorgun.
Í gær var gefin út gul viðvörun en í dag var bætt í.
Gul viðvörun er reyndar enn í gildi fyrir Austurland að Glettingi fyrst, eða milli klukkan 7-9 um morguninn. Þá er spáð suðaustan 15-23 m/s með snjókomu og skafrenningi. Það þýðir versnandi ferðaveður og jafnvel hætta á foktjóni.
Appelsínugula viðvörunin fyrir svæðið gengur í gildi klukkan níu og gildir til hádegi. Á þeim tíma er spáð suðaustan 20-25 m/s með snjókomu og skafrenningi. Ekkert ferðaveður verður á þessum tíma. Fólki er ráðlagt að hefta lausa muni og verktökum bent á að ganga vel frá framkvæmdasvæðum.
Á Austfjörðum er appelsínugula viðvörunin í gildi frá níu að morgni til hálf tvö eftir hádegi. Þar er spáð suðaustan 18-25 m/s með mikilli snjókomu og skafrenningi. Varað er við að talsverðar líkur séu á foktjóni, til viðbótar því sem að framan er greint.
Fram kemur í veðurspá að veðrið gangi niður seinni partinn á Austurlandi.
Vegna þessa hefur Heilbrigðisstofnun Austurlands hvatt Austfirðinga til að nýta sér sýnatöku vegna Covid-19 sem í boði er á morgun, sunnudag, en ekki er öruggt að hægt verði að taka sýni á mánudag. Á sunnudag er opið í björgunarsveitahúsinu í Neskaupstað frá 9-10 og í Blómabæ á Egilsstöðum frá 12-13:30.