Skip to main content

Ári eftir metþátttöku fellur Austfirðingablót niður vegna dræmrar þátttöku

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. feb 2024 09:45Uppfært 02. feb 2024 09:55

Fyrr í vikunni tók nefnd sú er skipulagði Austfirðingablót ársins í Reykjavík þá ákvörðun að blása viðburðinn, sem fara átti fram annað kvöld, endanlega af. Ástæðan er dræm aðsókn.

Austfirðingablótið er hið eina suðvestanlands sem sérstaklega er ætlað fólki af Austurlandi en að því hafa staðið sameiginlega flest þau átthagafélög sem starfa fyrir sunnan. Sú samvinna einmitt haft það í för með sér að afar góð þátttaka hefur verið á blótunum síðustu árin og allra best var hún fyrir ári síðan þegar blótið fór fram í Valsheimilinu og það sóttu um 280 manns.

Eyrún Björk Jóhannsdóttir, einn nefndarmanna, segir ákvörðunina hafa verið erfiða en nauðsynlega á þessum tímapunkti.

Við vorum að gera ráð fyrir sama metfjölda og fyrir ári eða kringum 280 manns og langaði að hafa það í sal sem passaði þeim fjölda og væri aðeins huggulegri og bókuðum því Gamla-bíó undir blótið nú. Við þurftum því þennan fjölda fólks til að ná endum saman en svo þegar leið á vikuna og aðeins voru um 140 miðar seldir þá fórum við að efast um að ná þeim mikla fjölda til viðbótar sem á vantaði svo á endanum þá tókum við þessa ákvörðun.

Sjálf hefur Eyrún engar einhlítar skýringar á dræmri sölu miða. Hugsanlega hafi það skipt máli að hækka þurfti miðaverðið á milli ára úr tæpum ellefu þúsund krónur í fimmtán þúsund. Þá sé vitað líka að stórir hópar Austfirðinga séu erlendis sem gæti einnig hafa haft áhrif hér á.

„Ég vona þó sannarlega að þetta sé einsdæmi og blótið verði aftur að veruleika að ári liðnu því þetta er frábær vettvangur til að endurnýja tengls Austfirðinga og eða búa til ný.“

Mynd frá blótinu fyrir ári síðan sem var ekki aðeins firnavel sótt heldur afar góður rómur gerður að. Mynd aðsend