Skip to main content

„Ársreikningurinn kom skár út en við óttuðumst“

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 26. apr 2022 13:37Uppfært 26. apr 2022 13:38

Bæjarfulltrúar í Múlaþingi virðast nokkuð sáttir við niðurstöðu ársreiknings sveitarfélagsins, einkum að afkoma hafi verið betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Almennt virðist sveitarfélagið vel stakk búið til framtíðar þótt áfram þurfi að leita leiða til að auka skatttekjur.


Samkvæmt niðurstöðu ársreiknings 2021, sem tekinn var til fyrri umræðu í dymbilviku, var afgangur samstæðu sveitarfélagsins 92 milljónir króna, meðan fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 5 milljóna afgangi.

Tap varð þó á A-hlutanum, verkefnum fjármögnuðum með skatttekjum, upp á 287 milljónir meðan reiknað var með 250 milljóna tapi. Þar munaði mestu um hækkun lífeyrisskuldbindinga sem öll sveitarfélög þurftu að taka á sig, Múlaþing upp á 217 milljónir umfram áætlanir. Veltufé frá rekstri var á móti 1070 milljónir úr samstæðunni, en í B-hluta eru verkefni eins og hafnir og veitur sem fjármögnuð eru með sértekjum.

Skuldir sveitarfélagsins voru 10,8 milljarðar í árslok, sem eru 99% af tekjum en lögboðið hámark er 150%. Skuldir jukust um 375 milljónir. Hluti af því er framlag ríkis og Landsvirkjunar við Sláturhúsið á Egilsstöðum en það var ekki nýtt á síðasta ári.

Björn Ingimarsson, bæjarstjóri, sagði bætta afkomu skýrast af meiri útsvarstekjum en vænst var auk þess sem afkoma HEF veitna og hafnarsjóðs hefði einnig orðið góð. Í áætlunum sveitarfélagins er reiknað með að reksturinn verði áfram þungur út næsta ár í kjölfar Covid-faraldursins en þó gæti hann lagast fyrr.

Þörf á að auka tekjur

Bæjarfulltrúar sem ræddu ársreikninginn lýstu almennt ánægju sinni með niðurstöðuna. „Það hefur gengið mikið á, bæði sameining og skriðuföll. Að við náum að halda áætlun tiltölulega vel er mikið grettistak og gott veganesti inn í næsta ár. Ég held að allir hafi staðið sig vel,“ sagði Þröstur Jónsson, bæjarfulltrúi Miðflokksins.

„Þetta kemur skemmtilega á óvart. Við áttum von á verri niðurstöðum eftir áskoranir sem við höfum mætt,“ sagði Hildur Þórisdóttir frá Austurlistanum. Hún benti þó á að niðurstaða A-hlutans væri ekki ásættanleg og ljóst að bæta þyrfti framlegðina. „Við þurfum að róa að því öllum árum að auka skatttekjur í sveitarfélaginu.“

Berglind Harpa Svavarsdóttir frá Sjálfstæðisflokki nefndi að lykiltölur eins og veltufé frá rekstri væri mun jákvæðara en reiknað hefði verið með. Ársreikningurinn sýndi eins að tekjur samstæðunnar væru meiri en búist var við. Áfram þyrfti þó að auka þær til að standa undir þörfum fjárfestingum í innviðum og rakti hún ýmsa framtíðarmöguleika í atvinnusköpun á svæðinu.

Helgi Hlynur Ásgrímsson úr Vinstrihreyfingunni – grænu framboði kom strax upp á eftir Berglindi og sagðist ekki hafa gert sér grein fyrir að komið væri út í kosningabaráttu og hann því ekki mætt með undirbúna framboðsræðu. „Það er rétt að ársreikningurinn kom miklu skár út en við óttuðumst, sem er jákvætt.“

Vel í stakk búið til framtíðar

Stefán Bogi Sveinsson, oddviti Framsóknarflokks, sagði að það ætti ekki að koma neinum á óvart að kosningar væru í nánd. Margir teldu niður fram að þeim og hlökkuðu til af ýmsum ástæðum, en hann var eini bæjarfulltrúinn sem talaði sem ákveðið hefur að hætta.

Um ársreikninginn sagði hann að í gegnum árin hefði þeirri stefnu verið fylgt hjá Fljótsdalshéraði og síðar Múlaþingi að fara varlega í tekjuáætlunum. „Það er afar mikilvægt að reyna ekki að leysa vanda sem kemur upp við fjárhagsáætlunargerð með tekjuspám. Það er mun skemmtilegra að eiga þessa umræðu sem við eigum hér um ársreikninginn, frekar en horfa upp á það um mitt ár að ná ekki tekjunum,“ sagði Stefán og þakkaði sérstaklega bæjarstjóra og fjármálastjóra sem lagt hefðu línurnar í áætlunargerðinni.

Hann sagði ársreikninginn sýna að sameining sveitarfélaganna í Múlaþing hefði verið viðamikið verkefni og á ýmsu gengið en gefa bjartsýni til framtíðar. „Múlaþing er vel í stakk búið til að takast á við áskoranir næstu ára. Það verður ekki auðvelt en þótt fjárfestingum fylgi lántökur er ekki í annað í spilunum en við ráðum við þær.“