Skip to main content

Askur Pizzeria í útrás til Kína

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. jún 2025 14:29Uppfært 30. jún 2025 14:31

Veitingastaður undir merkjum Asks Pizzeria, sem til þessa hefur aðeins verið á Egilsstöðum, var opnaður í kínverskri strandborg á laugardag. Einn eiganda Asks segist hafa verið lengi að trúa því að áhugi Kínverjanna væri raunverulegur. Stjórnendur Asks hafa síðustu daga verið í Kína að þjálfa starfsfólk.


„Þetta er búin að vera nokkuð sérstök atburðarás sem fór af stað í byrjun mars. Einn morguninn hringir einn pizzakokkurinn okkar og segir að það séu komnir þrír ákveðnir Kínverjar til að hitta mig því þeir vilji opna stað í Kína.

Kokkurinn kom þeim skilaboðum til mín að þeir hefðu sent á mig tölvupóst daginn áður. Ég opnaði póstinn og sá þar myndir af fokheldum stað. Ég bað þau um að koma aftur eftir hálftíma og þá hitti ég þau með Jóni Vigfússyni.“

Þannig hefur Friðrik Bjartur Magnússon, framkvæmdastjóri Asks, frásögnina af því hvernig stendur á að hann sé núna ásamt hinum eigendunum, Jóni og Unni Örnu Borgþórsdóttur, staddur í Weihai í Kína að opna annan Asks staðinn í sögunni.

Meðmæli frá Loðnuvinnslunni


Kínverjarnir sem hann og Jón hittu í vor dvöldu á Fáskrúðsfirði, voru að kaupa fisk af Loðnuvinnslunni. Stjórnandi þar hafði sagt þeim að pizzurnar á Aski væru þær bestu á svæðinu. „Þau höfðu ferðast töluvert um Evrópu og sögðust aldrei hafa smakkað jafn góða pizzu. Þau sendu myndir á vin sinn, Hr. Wang, sem ætlaði að opna veitingastað í verslunarmiðstöð sem var í byggingu og hann varð hrifinn.“

Friðrik Bjartur segir að fyrst á eftir hafi samskiptin verið í gegnum tölvupóst. „Um tíma héldum við að þetta væri gabb. Þá hringdum við í þann stjórnanda Loðnuvinnslunnar sem benti á okkur og hann sannfærði okkur um að þetta væri alvöru fólk.“

Héldu að opnunin yrði í júní 2028


Í apríl fóru stjórnendur Asks fyrst til Kína til að kanna aðstæður. „Það var fyrst talað um að opna „júní 28“ og við héldum það væri í júní árið 2028. Þegar við komum fyrst var verslunarmiðstöðin ekki mikið meira en fokheld en þar var niðurtalning á veggnum um að opnunin væri eftir 72 daga, það er núna 28. júní.

Við hittum stjórnendur verslunarmiðstöðvarinnar og spurðum hvort þetta gengi upp á þessum tíma. Þeir sögðu að þeir hefðu byggt 52 verslunarmiðstöðvar og verkið væri á góðum stað. Á Íslandi fær maður varla leyfi á þessum tíma!

En það stóðst allt sem okkur hefur verið sagt og mikill kunningsskapur myndaðist milli okkar og fólksins sem stendur að bakið þessu hér,“ segir Friðrik Bjartur.

Íslenska merkið notað til að draga að


Veitingastaðurinn heitir Papillion og selur fjölbreyttan mat. Askur Pizzeria er því einskonar veitingastaður inni á veitingastaðnum, pizzamatseðillinn er merktur Aski og það merki víða sjáanlegt inni á staðnum.

„Askur er notaður til að draga fólk að, það er framandi að vera með íslenskar pizzur. Hr. Wang hefur séð um alla hönnun en við bent á hvað þyrfti í pizzaferðina. Jón og einn pizzakokkanna okkar fóru út 18. júní til að hjálpa til á lokametrunum og þjálfa starfsliðið. Við Unnur komum síðan út nokkrum dögum síðar. Jafnvel tíu dögum fyrir opnun fannst okkur ótrúlegt að staðurinn myndi opna á réttum tíma en vinnan í bæði staðnum og verslunarmiðstöðinni hefur gengið fáránlega hratt.“

Pamela í Dallas – í Kína


Nöfn pizzanna á matseðlinum hjá Aski á Egilsstöðum eru dregin af þekktum íslenskum dægurlögum. Sum þeirra hafa fengið að halda sér meðan önnur hafa verið staðfærð. „Við völdum fyrir opnunina fimm pizzur af matseðlinum sem eru Pamela, B.O.B.A., Járnkarlinn, Vöðvastæltur og Stella í orlofi.

Ég fann ensk nöfn fyrir þrjár þeirra en Pamela og B.O.B.A. fengu að halda sér en síðan eru við hliðina kínversk heiti sem lýsa betur hvað er á pizzunni,“ segir Friðrik Bjartur. Pamelunafnið er dregið af lagi hljómsveitarinnar Dúkkulísanna frá Egilsstöðum.

Einni pizzu var bætt við á seðilinn fyrir kínverska markaðinn, hún er með durian eða dáraaldini sem er vinsæll ávöxtur í Suðuraustur Asíu en bragðið af honum er ekki við allra hæfi. Sérstaklega þó lyktin sem á til að loða við staði þannig að víða er bannað að fara með ávöxtinn inn á hótelherbergi eða í almenningssamgöngur.

„Á henni er majonesgrunnur, ostur og síðan durian. Ég smakkaði en hef ekki smekk fyrir henni. Þá vil ég frekar ananas! En hún hefur ekki selst mikið. Pamela nánast einokar markaðinn, er yfir helmingur pantana.“

Veðja á pizzur sem næsta æði


Asksfólkið hefur trú á að í Kína sé frjór markaður fyrir pizzur. Því má reyndar skjóta inn að Askur er ekki fyrsta íslenska pizzamerkið sem reynir fyrir sér í Kína. Pizza 67 setti upp staði árið 1999. „Pizzur eru ekki algengar í Kína en hér er horft til þess hvað er að gerast í Suður-Kóreu og þar er pizzan að ryðja sér til rúms. Hr. Wang spáir því að þær séu að springa út. Hann fór með okkur á hina staðina í Weihai sem selja pizzur og þeir voru ekki með handverkspizzurnar sem hafa verið að ryðja sér til rúms á Íslandi síðustu ár.

Við vildum koma með þunnbotna, steinbökuðu pizzurnar. Eitt fyrsta vandamálið sem við lentum á var að eldof var ekki leyfður í verslunarmiðstöðinni. Í staðinn keyptum við rafmagnssteinofn sem lítur eins út og skilar ótrúlega góðum gæðum.“

Fyrstu dagarnir hafa gengið vel. „Við þjálfuðum upp tvo lykilstarfsmenn. Pizzurnar líta vel út. Við höfum jafnvel hugsað hvort pizzurnar hér séu betri en heima. Það hefur gengið vel að fá hráefni í deig og slíkt. Þetta er að minnsta kosti ekki sama katastrófan og þegar við opnuðum heima 2019, fyrstu dagarnir voru mjög erfiðir. Hlutirnir ganga líka hratt fyrir sig hér. Ef það þarf að breyta kæli þá er það gert daginn eftir.“

Sumarleyfisborg fyrir Kínverja


Weihai er strandborg, austarlega í Kína, stendur á skaga sem vísar í áttina að Kóreuskaganum. Í henni búa um þrjár milljónir manna. „Þetta er smábær á kínverskan mælikvarða. Þetta er vinsæll sumarleyfisstaður, Kínverjar koma hingað og við erum hérna núna um hásumarið. Stór hluti viðskiptavinanna til þessa eru innlendir ferðamenn.“

Ef vel gengur með fyrsta staðinn er mögulegt að samstarf Asks og Wang haldi áfram. „Við vissum ekkert hverju við var að búast hér. Enn sem komið er seljast færri pizzur hér en heima en Kínverjarnir eru ánægðir með hvernig gengur. Ef þetta gengur vel þá hefur Wang augastað á fleiri nýjum verslunarmiðstöðvum, bæði hér í Weihai og síðan í Guangzhou (20 milljóna borg, þeirri fimmtu stærstu í Kína).

Við kýldum á þetta því þetta er mikið ævintýri. Við töpum engu á að vera með því við leggjum inn okkar þekkingu, vörumerki og einhverjar ferðir. Við höfum notið þess virkilega því Weihai er frábær staður,“ segir Friðrik Bjartur að lokum.

Jón, Friðrik Bjartur og Unnur ásamt herra og frú Wang við opnun staðarins. Mynd: Aðsend

Jón með pizzu á kínverska staðnum. Mynd: Aðsend

askur kina jon