Skip to main content

Athugasemdir við landbótaáætlun Six Rivers á Vopnafirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 18. jan 2024 09:34Uppfært 18. jan 2024 09:35

Bæði Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun gera nokkrar athugasemdir við landbótaáætlun þá sem fyrirtækið Six Rivers hyggur á meðfram Selá í Vopnafirði.

Austurfrétt greindi frá áformum Six Rivers fyrir nokkru og lesa má um hér en Six Rivers er sem kunnugt er fyrirtæki breskra milljarðamæringsins Jim Ratcliffe sem keypt hefur upp stórar landspildur í firðinum á síðustu árum. Gróflega ganga landbótahugmyndirnar út á að bæta lífsskilyrði Norður-Atlantshafslaxins með stóraukinni skóg- og plönturækt við Selá en það þykir sannað að slíkt sé vænlegt til að bæta líffræðilegt ástand veiðiáa. Slíkar aðgerðir víða í gangi annars staðar meðfram vinsælum veiðiám í veröldinni. Six Rivers hóf þessa vegferð reyndar árið 2017 með plöntun trjáa við Selá sjálfa sem og hliðarár og læki en nýja áætlunin gerir ráð fyrir að bæta duglega þar í.

Í umsögn Náttúrufræðistofnunar [NST] er fyrst og fremst bent á að þar sem hugmyndin sé að breyta líffræðilegu ástandi Selár heyri slíkt undir stjórn vatnamála og mikilvægt sé að áformin séu rýnd með tilliti til þess. Stjórn vatnamála starfar eftir rammatilskipun Evrópusambandsins sem stuðlar að verndun vatns og vistkerfa  þess. Stofnunin bendir ennfremur á að á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði séu árbakkar tiltölulega vel grónir fjalldrapamóa og votlendi og á hluta votlendissvæðisins finnist rimamýrarvist en slíkt er með hátt verndargildi. Trjáplöntur geti jafnframt dreift sér í votlendi og þurrkað það upp með tíð og tíma. Þá tiltekur NST að sú hugmynd að nota erlendar plöntur að hluta til við verkefnið gangi ekki upp þar sem slíkar tegundur eigi alls ekki heima við hálendismörk eða á hálendinu sjálfu.

Umhverfisstofnun [UST] tekur ekki illa í skógrækt og uppgræðslu almennt en sú stofnun telur ekki útilokað að stærð ræktarsvæðisins sé það stórt að það nái hugsanlega undir lög sem kalla á sérstakt mat á umhverfisáhrifum en slíkt þurfi þá að fara gegnum ferli hjá Skipulagsstofnun. Fræðingar UST telja verkefnið nægilega stórt til að fram fari nákvæm greining slíkra framkvæmda. Sérstaklega verði að rannsaka hvort trjágróður þurrki ekki upp votlendið en þau eru búsvæði fugla á borð við heiðlóu, spóa, jaðröku, himbrima og sendlinga svo fáir fuglar séu nefndir.