Atlantshafslaxinn er fisktegund í kreppu

Stofnstærð villta Atlantshafslaxins er um þriðjungur af því sem hún var fyrir um fjörutíu árum, þrátt fyrir að veiðar á honum hafi minnkað. Sérfræðingur segir margt vitað um líferni fisksins í ferskvatni en takmarkað hvað taki við í sjónum. Á Vopnafirði er skógur ræktaður til að bæta búsetuskilyrði laxins.

„Þetta er fisktegund í kreppu. Það er mikil afturför á stofninum á heimsvísu en samt sjáum við fullt af laxi í matvörubúðum þannig það mætti halda að það væri nóg af honum,“ sagði dr. Rasmus Lauridsen, rannsóknastjóri hjá Six Rivers á ráðstefnu þess um stöðu villta Atlantshafslaxins á Vopnafirði nýverið.

Rasmus sagði að talið væri að um sex milljónir laxa hefðu gengið út í sjó á níunda áratugnum en væru núna um tvær milljónir. Á sínum tíma hefðu um 10.000 tonn af laxi verið veidd í sjó en þau væru nú 1.000. Þrátt fyrir þetta fækki laxinum áfram. Á sama tíma hafi laxeldi vaxið með undraverðum hætti. Það sé hins vegar önnur dýrategund en lifi í ánum.

Rasmus sagði villta laxinn einhverja mest rannsökuðu fisktegund heims. Hins vegar ætti það fyrst og fremst við lifnaðarhætti hans í ánum, sem hann elst upp í áður en hann gengur til sjávar þar sem hann þroskast enn frekar áður en hann fer aftur upp í árnar til að hrygna. Rasmus líkti sjónum við „svarthol“ með vísan þess hve lítið væri vitað um það sem þar gerðist.

Six Rivers sér um laxastofna í sex ám á Norðausturlandi. Áætlað er að 10-20% af íslenska laxastofninum sé í þeim. Rasmus sagði mikla ábyrgð fylgja því að hugsa um árnar.

Skógræktin hundraðfölduð á sjö árum


Til þess hefur félagið meðal annars reynt að bæta búsetuskilyrði í þeim. Hluti af því er skógrækt í nágrenni ánna. Hún bindur jarðveg fínn sandur sem fýkur í árnar spillir fyrir laxinum. Aðaltilgangurinn er hins vegar að auka fæðuframboð en íslensk vötn, einkum á Norðausturhorninu, teljast frekar næringarsnauð.

Skógræktin er hafin inn á Selárdal og er að mestu leyti notast við birki. Þá er einnig gróðursettur víðir, reyniviður og ögn af lerki. Ber reyniviðarins bæta í fæðuframboð svæðisins og þegar lerkið fellir barr sitt myndar það jarðveg og næringarefni. Allt þetta hjálpast til við að styrkja vistkerfið í kringum og í ánum.

Til þessa hafa verið gróðursett 150 þúsund tré í Selárdal og fyrir þetta sumar var stefnan að bæta 200.000 við. Hrafnkatla Eiríksdóttir, sem leiðir skógrækt Six Rivers, segir best að bæta umverfið innst í dalnum því þannig flæði næringarefnin niður eftir allri ánni. Slíkt getur einnig hjálpað til við að jafna út sveiflur sem fylgja flóðum í ánum.

Áætlanir eru að bæta verulega í skógræktina á næstu árum. Þannig voru gróðursettar 10 þúsund plöntur árið 2021 en stefnt er á að þær verði 1 milljón árið 2028, sem er 100 sinnum meira. Hrafnkatla sagði leitast við að nota plöntur sem þegar séu á svæðinu og séu að breiða úr sér með hlýnandi loftslagi og minnkandi beit. Ræktun Six Rivers herði aðeins á þeirri þróun. Þá eigi skógræktin hlut í að uppfylla skuldbindingar og markmið Íslendinga í loftslagmálum.

Skipulagsmál íþyngjandi fyrir skógræktina


Hrafnkatla sagði vel fylgst með skógræktinni og áhrifum hennar. Stærsta áskorunin nú væri að auka möguleika nýrra plantna til að komast af. Í því skyni væri verið að skoða gróðusetningu á smára til að búa til næringu, nota plöntuhlífar eða gamlar heyrúllur sem áburð í land. Þær einangra líka jarðveginn og draga úr frostlyftingu. Ekki er notast við tilbúinn áburð í skógræktinni.

„Aukinn gróðurþekja og landgróður, sem henni fylgir, hafa mörg jákvæð áhrif, einkum að minnka jarðvegstap og bæta jarðvegsgæði. Markmiðið er þó ekki að það verði gleði og hamingja af fiskinum heldur að þjónusta fiskinn,“ sagði hún.

Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Six Rivers, gagnrýndi skipulagsyfirvöld fyrir íþyngjandi aðgerðir í garð skógræktarinnar. „Við setjum okkur reglur sem vinna svo á móti okkur. Flestir eru sammála um að skógrækt sé til góðs en síðan vakna upp skrýtnir hlutir í skipulagsferlinu sem vinna gegn því allir vilja. Ég veit ekki hvort þetta er embættismönnum eða stjórnsýslunni að kenna. Við hræðumst að taka skrefin og það kostar tíma og peninga.“

Rasmus sagði lykilatriði að hafa rétt búsetuskilyrði og nóg af þeim í ánum. Byrjað var að kortleggja þau á vegum Six Rivers í fyrra og því verki hefur verið haldið áfram í sumar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.