Skip to main content

Átta gistu í fjöldahjálparmiðstöð á Djúpavogi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. okt 2023 08:33Uppfært 11. okt 2023 08:46

Fjöldahjálparmiðstöð var opnuð á Djúpavogi í gærkvöldi þar sem átta ferðamenn voru innlyksa og án gistingar. Gærdagurinn var rólegur hjá viðbragðsaðilum á Austurlandi þar sem vegum var lokað í tæka tíð.


„Eftir að búið var að loka vegunum þá var helst að ferðafólk kæmi á stöðina til að spyrja um möguleika á gistingu og hvenær vegirnir myndu opna. Við erum miklu frekar til í það heldur en senda björgunarsveitir út í veðrið,“ segir Hjalti Bergmar Axelsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi.

Stærstu tíðindin úr hvassviðrinu í gærkvöldi eru trúlega þau að upp úr kvöldmat var fjöldahjálparmiðstöð opnuð í grunnskólanum á Djúpavogi. Þar voru átta manns sem gátu hvergi farið því leiðir bæði til norðurs og suðurs voru lokaðar. Þá fékk fólkið hvergi í gistingu þar sem allt gistipláss var uppbókað.

Annars voru fimm útköll í gær vegna ökutækja í vanda. Tvö voru á Fjarðarheiði, önnur tvö á Sandvíkurheiði og eitt á Vopnafjarðarheiði. Minniháttar óhöpp urðu í umferðinni en engin slys á fólki.

Á Egilsstöðum fauk trampólín og á Djúpavogi var björgunarsveitin kölluð til þar sem þakkantur losnaði á húsi.

Hálka er á Fagradal og Fjarðarheiði. Lokað er milli Djúpavogs og Hafnar enda enn 47 m/s í hviðum í Hamarsfirði. Þá er enn lokað yfir Öxi, Möðrudalsöræfi, Vopnafjarðarheiði og Vatnsskarð. Ekkert hefur verið gefið út um hvenær þær opna.

Gul viðvörun er í gildi á Austurlandi til klukkan tíu, á Austfjörðum til klukkan ellefu og til hádegis á Suðausturlandi.