Atvinnuleysi innan við eitt prósent á Austurlandi
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 23. ágú 2023 10:24 • Uppfært 23. ágú 2023 10:32
Töluvert hefur dregið úr atvinnuleysi á Austurlandi frá byrjun þessa árs en samkvæmt nýjustu tölum Vinnumálastofnunar var atvinnuleysi í fjórðungnum innan við eitt prósent í júlímánuði.
Það er, að frátaldri stöðunni á Norðurlandi vestra, minnsta atvinnuleysi á landinu öllu. Í liðnum júlí mældist atvinnuleysið meðal kvenna hér 1,0% en 0,9% meðal karla. Til samanburðar er langmest um atvinnulausa á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu eða milli 3% og 4% í sama mánuði.
Þó atvinnuleysi hafi minnkað víðast hvar frá byrjun ársins er fallið hvað mest á Austurlandi sé miðað við janúarmánuð. Þá mat Vinnumálastofnun atvinnuleysið meðal kvenfólks 2,7% og 2,4% hjá körlum.