Atvinnusvæðin verða líka að vera örugg

Veðurstofan hefur lokið við úttekt á möguleikum þess að verja atvinnusvæði, sem eru á hættusvæði C, fyrir ofanflóðum. Drög að skýrslunni var kynnt fyrir sveitarstjórnum Múlaþings og Fjarðabyggðar í síðustu viku en hún verður fljótlega opinber í gegnum Samráðsgátt stjórnvalda.

Úttektin var gerð að beiðni Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, loftlags- og orkumálaráðherra en hann og Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, komu austur síðasta föstudag ásamt starfsmönnum Veðurstofunnar til að kynna helstu niðurstöður austfirsku sveitarstjórnarfólki.

Fundað var með Múlaþingi og Fjarðabyggð þar sem á Seyðisfirði og Norðfirði eru atvinnusvæði sem skilgreind eru á hættusvæði C, mesta hættusvæðinu. Á slíkum svæðum er óheimilt að reisa ný íbúðarhús og ber þá að verja þau eða kaupa upp. Þær reglur gilda ekki fyrir atvinnusvæði í dag.

„Þótt ofanflóðavarnir hafi miðað við íbúasvæði þá snýst þetta allt um öryggi fólks og framtíðarhorfur. Við verðum líka að hafa atvinnusvæðin örugg,“ segir Guðlaugur Þór.

Skipulagið hjá sveitarfélögunum


Málefni sem varða náttúruvá heyra undir umhverfisráðuneytið. Ráðherrarnir fóru saman í að kynna drögin þar sem verkefni sveitarfélaga heyra undir innviðaráðuneytið. „Við erum að hefja samtalið við þessi sveitarfélög þar sem atvinnusvæði eru á hættusvæði C. Þetta eru um tíu staðir.

Sveitarfélögin voru með í ráðum þegar byrjað var að vinna að ofanflóðavörnum. Þau skipta máli því skipulagsmál, hafnarmannvirki og fleira líkt eru þeirra verkefni. Við komum hingað til að hefja samtalið sem síðar endar hugsanlegum laga eða reglugerðarbreytingum,“ segir Sigurður Ingi.

Guðlaugur Þór segir að hugsunin með kynningunni nú hafi verið að fá viðbrögð sveitarstjórnafólks. Vilji sé til að halda vinnunni áfram, til dæmis lagabreytingum, í góðri sátt við heimafólk. Með skýrslunni sé komið fram gagn sem sveitarfélögin geti strax byrjað að nýta í skipulagsvinnu sinni.

„Það hefur verið áhugavert að heyra sjónarmið sveitarstjórnarfólksins sem velti ýmsu fyrir sér. Það auðveldar verkefnið að sveitarfélögin eru orðin stærri en þau voru fyrir 20 árum síðar. Hér á Austurlandi hefur verið unnið gott svæðisskipulag og í slíkri vinnu er gott að hafa upplýsingar eins og nú liggja fyrir til grundvallar.“

Ef við hefðum haft betri upplýsingar fyrir einhverjum áratugum þá hefðum við skipulagt byggðina öðruvísi. Við snúum því ekki við en það skiptir máli að skoða málin til framtíðar þannig að sú byggð, innviðir og atvinnustarfsemi sé á eins öruggum stöðum og hægt er.“

Bætist við að þurfa að verja atvinnusvæðin


Ný lög um ofanflóð, sem urðu til þess að ofanflóðasjóður var stofnaður til að verja íbúabyggð, voru sett af Alþingi árið 1996. Nýr kraftur var settur í verkefnið, sem hafði hægst á eftir fjármálahrunið 2008, í kjölfar snjóflóða á Vestfjörðum í byrjun árs 2020. Stjórnvöld gera nú ráð fyrir að hafa lokið við að verja það íbúðarhúsnæði sem á að verja fyrir árið 2030.

„Við höfum sett 35 milljarða í ofanflóðaverkefni á undanförnum árum og eigum álíka upphæð eftir. Nú þurfum við að skoða atvinnusvæðin í viðbót. Þetta þýðir að verkefnið lengist. Í skýrslunni er fyrst og fremst metið hvað hægt er að gera og hvað væri varið ef varnarmannvirki eru byggð,“ segir Guðlaugur Þór um helstu niðurstöður skýrslunnar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.