Skip to main content

Auka gæði vatns á Djúpavogi með nýju vatnsbóli

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. maí 2025 11:38Uppfært 20. maí 2025 14:35

Í síðustu viku var tekið í notkun nýtt vatnsból fyrir íbúa Djúpavogs en unnið hefur verið að því að færa þau mál í betra horf um rúmlega eins árs skeið. Vonir standa til að eftirleiðis verði vatnsgæði íbúanna allmikið betri en hingað til.

Vatnið í nýja bólið kemur frá eyrum Búlandsárinnar rétt um 400 metrum fyrir ofan þjóðveginn framhjá þorpinu. Gamla vatnsbólið var staðsett í Búlandsdal og fékk vatn beint úr Búlandsá og lindarbrunnum þar í kring. Kom það af og til fyrir að gamla vatnsbólið mengaðist af gruggi eða öðru sem var ástæða þess að lagt var í framkvæmdir við nýja vatnsbólið.

Voru glænýjar dælur gangsettar í síðustu viku og síðan þá hafa íbúar fengið allt vatn sitt úr nýja vatnsbólinu. Hið gamla er ekki í notkun en fram kemur á vef HEF-veitna að það muni þjóna sem varavatnsból á meðan reynsla fæst á hið nýja. Binda menn miklar vonir við að með þessu megi bæta vatnsgæði svæðisins til muna.

Mynd úr smiðju HEF-veitna af lokahúsi og borholum við eyrarnar en það allt varið af grjótgörðum eins og sjá má.