Skip to main content

Auka snjóflóðavöktun í Neskaupstað

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. sep 2023 11:34Uppfært 11. sep 2023 11:37

Snjóflóðadeild Veðurstofu Íslands hefur fjölgað mælitækjum í hlíðunum fyrir ofan Neskaupstað í því skyni að fá enn gleggri mynd af snjóalögum og hitastigi í framtíðinni.

Sérfræðingar voru í Neskaupstað fyrir mánaðarmótin að setja upp nýtt mastur og endurnýja fjölmargar stikur sem brotnuðu síðastliðinn vetur. En þá voru jafnframt líka settir upp nýir mælar sem auka eiga allar upplýsingar og skilning á og um snjólög fyrir ofan bæinn. Þar féllu sem kunnugt er allmörg flóð síðastliðinn vetur sem ollu töluverðu tjóni í bænum og margir íbúar hætt komnir.

Einn þeirra sérfræðingar sem þátt tóku í þeirri vinnu er Óliver Hilmarsson, snjóflóðasérfræðingur, en hann segir að bæði hafi verið sett upp glænýtt mælimastur sem og nýir og öflugri mælar. Við það naut Veðurstofan aðstoðar þyrlu Landhelgisgæslunnar.

„Við settum upp nýtt og öflugt mælimastur í Bakkagili en það mastur býður upp á að hægt verður að festa ýmis konar búnað það í framtíðinni. Við erum búnir að koma þar fyrir nú þegar tveimur tegundum af snjódýptarmælum. Annar þeirra mælir bæði snjódýpt og tekur hitastig um leið. Slíkur mælir hefur verið þarna til staðar áður en með nýju mastri er mælingar betur tryggðar og mastrið sjálft er það öflugt og þungt að það getur tekið á sig miklu meira en hægt var áður. Ætli mastrið sjálft sé ekki fjórir til fimm metrar en það er hægt að fella til að lesa mæla og eða bæta við mælum og tækjum svo það auðveldar okkar verk mikið.“

Óliver segir að enn sé verk að vinna áður en veturinn gengur í garð en til þess þurfi hagstætt veður því nýta þurfi þyrluna á nýjan leik.

„Það stendur til að gera það í þessum mánuði ef hægt verður en þá er megintilgangurinn að endurnýja mælistikur sem við vorum með víða í hlíðunum fyrir ofan bæinn. Þær brotnuðu mjög margar í flóðunum síðasta vetur og brotna almennt auðveldlega ef snjóþyngsli eru mikil. Þær þarf að endurnýja. Þá er einnig hugmyndin að setja svona einn léttan snjóhitamæli í Nesgilið líka. Að því loknu verðum við komnir með mælitæki í bæði gilin þar sem snjóflóðavarnir eru engar fyrir neðan.“

Óliver segir allt hjálpa til við að afla sem nákvæmasta upplýsinga um snjóalög en segir líka að þetta séu aðeins tveir mælipunktar á stóru svæði og því þurfi að taka öllu með þeim fyrirvara.

Sérstakur samráðsfundur ofanflóðavaktar Veðurstofu Íslands verður svo haldinn í Neskaupstað í byrjun næsta mánaðar en þar bera menn saman bækur sínar miðað við fyrirliggjandi upplýsingar. Þar gefst íbúum einnig tækifæri til að fræðast um það sem verið er að vinna og gerast hjá þeirri deild.

Uppsetning á nýju öflugu mælimastri snjóflóðadeildar Veðurstofu Íslands gekk vel um daginn og fleira á að gera áður en vetur gengur í garð. Mynd Hjálmdís Zoéga