Aukin snjóflóðahætta á Austurlandi næstu daga
Ofanflóðadeild Veðurstofu Íslands spáir aukinni snjóflóðahættu í fjalllendi austanlands næstu dægrin og er sú hætta metin töluverð.
Snjóflóðahætta er í dag metin nokkur. Samkvæmt veðurspá fer að þykkna upp síðdegis og hugsanlega slydda eða snjókoma með köflum með kvöldinu ofarlega í fjöllum. Hitamælirinn mun svo færast upp á við í nótt með hlýindum og gerir spáin ráð fyrir allt að sjö stiga hita víða austanlands á morgun áður en það fer að kólna aftur annað kvöld.
Það er þessi hlýnun sem skapar hlákuaðstæður sem getur haft alvarleg áhrif. Töluvert bætti í snjóalög í síðustu viku og lagskiptir flekar mynduðust sem gerist gjarnan þegar nýr snjór bindst illa við eldra hjarn. Stórt flekaflóð féll í Eskifirði á föstudaginn af þessum orsökum.
Sem fyrr tiltekur Veðurstofan að snjóflóðaspár eru gerðar fyrir stór svæði og eru ekki endilega lýsandi fyrir snjóflóðahættu í eða við byggð.
Nokkrar sviptingar hafa verið í veðrinu síðustu vikuna og skipst á hlýindum og frosti. Skíðafæri þó almennt verið gott á skíðasvæðum Austurlands. Mynd Skíðasvæðið Stafdal