Skip to main content

Aukinn hraði á Austfjörðum eftir uppfærslur hjá Mílu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. júl 2025 16:27Uppfært 02. júl 2025 16:31

Íbúar með ljósleiðaratengingar á fimm austfirskum þéttbýlisstöðum geta fengið aukinn nethraða eftir uppfærslu á búnaði Mílu. Framkvæmdir á vegum fyrirtækisins í Fjarðabyggð hafa gengið mjög vel.


Það hversu snemma frost fór úr jörðu í vor þýddi að framkvæmdir í Fjarðabyggð gátu farið fyrr af stað en áætlað var. Búið er að tengja öll heimili á Stöðvarfirði og Breiðdalsvík.

Í Neskaupstað er jarðvegsvinnu nánast lokið en hún stendur yfir á Fáskrúðsfirði. Lokið verður við að tengja öll hús á þessum stöðum í ár. Á næsta ári verður tengt á Reyðarfirði og Eskifirði en undirbúningur er að hefjast fyrir framkvæmdir þar.

Auk ljósleiðaratenginganna sjálfra hefur Míla uppfært búnað sinn á Eskifirði, Fáskrúðsfirði, Norðfirði, Reyðarfirði og Seyðisfirði þannig að notendur með ljósleiðara geta betur nýtt þann hraða sem er í boði.

Mestu hraðinn á Reyðarfirði


Til þessa hefur hámarkshraðinn verið 1 gb/sek í niðurhal en þau sem sem eru komin með ljósleiðaratengingar í þessum bæjum hafa nú aðgang að svokölluðu 10x sambandi Mílu sem gefur að lágmarki 2,5 gb/sek. Á Reyðarfirði er reyndar 8,6 gb/sek samband en meiri hraði er í boði á hinum stöðunum ef þarf.

„Við erum stolt af því að tengja Austurland við framtíðina með öflugustu nettengingu sem í boði er á Íslandi. 10x vettvangurinn veitir ekki aðeins hraðari og traustari nettengingu í gegnum ljósleiðara heldur opnar hann möguleika á aukinni nýsköpun, öruggara atvinnulífi og betra daglegu lífi,“ segir Erik Figueras Torras, forstjóri Mílu í tilkynningu frá félaginu.

Fleiri nettengd tæki þurfa hraðara samband


Þar er vísað til alþjóðlegra spáa um að bandvíddarþörf evrópskra heimila aukist um 20% árlega næstu árin. Það er meðal annars vegna þess að nettengdum tækjum fjölgar, reiknað er með að allt að 20 virk nettengd tæki verði á hverju heimili í framtíðinni.

„10x er sterk og áreiðanleg tenging sem mætir kröfum heimila og fyrirtækja í dag og til framtíðar. Með henni geta öll tæki heimilisins verið tengd samtímis án þess að það bitni á hraða. Þá þarf vart að taka fram hversu mikilvæg þessi innviðauppbygging er fyrir atvinnulífið.

„Við erum að byggja upp framtíðarvettvang þar sem nethraði og áreiðanleiki spila lykilhlutverk í því að styðja við framfarir á öllum sviðum samfélagsins – ekki síst í dreifbýli þar sem traust og öflug tenging við umheiminn skiptir sköpum,“ segir Erik.

Míla tryggir tengingar en netþjónustufyrirtækin selja inn á þær. Hjá þeim er núna hægt að nálgast Wi-fi 7 beina, sem styðja 2,5 gb/sek þráðlaust samband. Notendur geta leitað til þeirra til að fá nýja netbeina til að fullnýta hraðann inn í húsið.

Mynd: Míla