Auknar líkur á „stórum náttúrulegum snjóflóðum“ á sunnudag

Viðvörunarstig vegna snjóflóðahættu á Austfjörðum hækkar á sunnudaginn kemur upp á fjórða stig sem þýðir mikla hættu samkvæmt nýjustu spá Veðurstofu Íslands.

Snjóflóðahætta hefur verið viðvarandi um nokkurt skeið í fjörðum Austurlands og allnokkur flekaflóð fallið bæði í Seyðisfirði og Eskifirði síðustu sólarhringana. Þar af eitt í stærra lagi ofan við Eskifjörð sem Austurfrétt greindi frá á miðvikudaginn var. Þau flóð féllu öll meðan hættustig var á þriðja stigi sem er töluverð hætta.

Samkvæmt hættutöflu snjóflóða er á fjórða stigi talið líklegt að flóð falli víða í bröttum brekkum og það jafnvel við lítið álag á snjóþekjuna. Við sérstakar aðstæður geta fallið fjölmörg miðlungsstór og oft á tíðum stór náttúruleg flóð.

Í útskýringum vegna aukinnar hættu segir að lagskiptir flekar hafi myndast yfir páskana í NA-éljagangi en þeir geti verið óstöðugir. Meðan veður helst gott stafar hætta fyrst og fremst af mannavöldum en aftur á að fara að snjóa og skafa um helgina og þar með aukast líkurnar á stærri náttúrulegum flóðum.

Þó engin snjóflóð austanlands síðustu daga hafi beinlínis verið af mannavöldum svo vitað sé, hafa minnst átta flóð fallið af þeim völdum á Norðurlandi síðan fyrir páskana. Í þeim nokkrum grófust einstaklingar og einn slasaðist töluvert. Öllum tókst þó að bjarga en mildi þykir að ekki hafi farið verr. Beinir Veðurstofan því til ferðafólks á fjöllum að gæta ýtrustu varúðar og forðast eftir megni brattar brekkur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.