Háskólanám austanlands frá næsta hausti
„Það er gleðiefni að tilkynna að frá haustinu 2022 verður í fyrsta sinn hægt að stunda BS-nám í tölvunarfræði frá Austurlandi og auk þess er í undirbúningi að bjóða frekara nám í tæknifræði,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra nýsköpunar, iðnaðar og háskóla, en þetta mun í fyrsta skipti sem háskólanám er aðgengilegt í fjórðungnum.
Frá þessu greindi ráðherrann á 10 ára afmælishátíð Austurbrúar sem fram fór í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði á föstudaginn var. Þar átti Áslaug Arna að vera í eigin persónu en reyndist föst á Grænlandi þegar til kom og ávarpaði því hátíðargesti gegnum netið
Áslaug sagði að ráðuneyti hennar styddi heils hugar verkefnið sem ætlað væri að bæta almennt menntunarmöguleika á Austurlandi að því koma auk Austurbrúar, Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Akureyri.
„Allt fellur þetta sérstaklega vel að mínum áherslum í mínu ráðuneyti, framtíðarsýn og byggðaáætlun og mig hlakkar til að vinna að þessari framtíðarsýn með ykkur öllum.“
Nokkuð hefur borið á gagnrýni undanfarin ár vegna skertra námsmöguleika Austfirðinga miðað við marga aðra landshluta en margar námsleiðir í háskólum landsins hafa verið óaðgengilegar nema viðkomandi flytji beinlínis suður eða norður meðan á námi stendur.