Austfirðingar hvattir til að vera heima í fyrramálið
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 06. feb 2022 21:22 • Uppfært 06. feb 2022 21:24
Vegir á Austurlandi verða lokaðir frá klukkan átta í fyrramálið og framyfir hádegi. Búast má við ófærð á fjallvegum lengur. Viðbúið er að skólahald falli víða niður.
Þetta kemur fram í yfirliti frá Vegagerðarinnar og tilkynningu frá aðgerðastjórn almannavarna á Austurlandi. Appelsínugul veðurviðvörun hefur verið gefin út fyrir Austurland og Austfirði frá klukkan sjö í fyrramálið til 13:30.
Aðgerðastjórnin segir að á þessum tíma verði ekkert ferðaveður, hvort sem er innanbæjar eða utan,. Eru íbúar því hvattir til að halda sig heima í fyrramálið og þar til veðrið er gengið yfir.
Vegagerðin hefur gefið út að vegir á Austurlandi verði lokaðir frá klukkan átta í fyrramálið. Nokkrar leiðir eru skilgreindar sérstaklega. Möðrudalsöræfi loka klukkan sex, Fjarðarheiði og vegurinn frá Höfn til Breiðdalsvíkur klukkan sjö og Fagridalur klukkan átta.
Ekki er von á nýjum upplýsingum fyrr en eftir hádegi. Bent er á að fjallvegir kunni að verða lokaðir fram eftir degi og jafnvel allan daginn.
Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula viðvörun frá klukkan sjö í fyrramálið til 13:30 fyrir Austurland og Austfirði. Á þessum tíma er spáð suðaustan átt með meira en 20 m/s í meðalvindhraða og mikilli snjókomu.
Um eða upp úr hádegi dúrar í um tíma en þegar líður á daginn er víða von á hvassri suðvestan átt sem ekki lægir fyrr en um kvöldmat.
Íbúar hafa verið hvattir til að hefta lausamuni til að koma í veg fyrir foktjón. Stjórnendur fyrirtækja og stofnana, sem tryggja þurfa órofinn rekstur, hvattir til að gera ráðstafanir.
Ljóst er orðið að skólahald fellur víða niður á svæðinu í fyrramálið. Frekari upplýsingar verða sendar foreldrum og forráðamönnum síðar í kvöld eða fyrramálið. Þeir eru hvattir til að fylgjast með tilkynningum á heimasíðum viðkomandi skóla.
COVID sýnataka á vegum Heilbrigðisstofnunar Austurlands, (HSA), sem skipulögð var á morgun fellur niður.