Austfirðingar með Covid lagðir inn í Neskaupstað
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 09. mar 2022 08:28 • Uppfært 09. mar 2022 08:30
Ríflega 430 Austfirðingar hafa greinst með Covid-veiruna síðustu tvo daga. Mikið álag er orðið á Heilbrigðisstofnun Austurlands.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem aðgerðastjórn almannavarnanefndar Austurlands sendi frá sér í gærkvöldi.
Það kemur að alls hafi verið tekin 650 sýni síðustu daga. Af þeim hafi 431 verið jákvætt, eða 66% sýnanna. Það segi að farsóttin sé enn á fullri ferð og toppnum ekki náð.
Vegna þessa hafa Covid-smitaðir verið lagðir inn á Umdæmissjúkrahúsið í Neskaupstað. Að auki hafa komið upp veikindi meðal íbúa á tveimur af fimm hjúkrunarheimila á svæðinu. Fjöldi starfsfólks HSA er frá vinnu vegna veikinnar, í sumum tilfellum eru vaktir mannaðar frá degi til dags.
„Þannig er núverandi Covid-bylgja að leika okkar landsvæði mjög hart og þess má vænta eitthvað áfram. Aðgerðastjórn brýnir því íbúa sem fyrr til að gæta að sér, nota grímu þegar það á við, viðhafa fjarlægð og vanda handþvott og sprittun en ekki síst að halda sig heima ef einkenna verður vart og fara þá í sýnatöku.
Öll él birtir upp um síðir en eins og sakir standa er skyggni afleitt á Austurlandi. Förum því fetið enn um sinn,“ segir í tilkynningunni.