Austfirðingar styðja við þyrlu á Akureyri
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 23. maí 2025 10:13 • Uppfært 23. maí 2025 10:14
Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) telur jákvætt að ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar verði framvegis staðsett á Akureyri. Forsætisráðherra skýrði frá því í gær að fjármagn væri tryggt til þess. Viðbragðstími þyrlunnar styttist verulega með þessu.
Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra, var í fundaferð um Norður- og Austurland í gær. Á fundi á Akureyri sagði hún frá því að búið að væri að fjármagna viðbótarfjárveitingu til gæslunnar þannig að þyrla gæti verið staðsett á Akureyri. Áætlaður kostnaður á ári er áætlaður um 500 milljónir króna.
Í byrjun febrúar var lögð fram þingsályktunartillaga á Alþingi þar sem hvatt var til þess að ein af þyrlum gæslunnar yrði framvegis með heimahöfn á Akureyri. Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins úr Norðausturkjördæmi, var fyrsti flutningsmaður tillögunnar en með honum fleiri samflokksmenn hans auk þingmanna Miðflokks, Framsóknarflokks og Viðreisnar úr Norðausturkjördæmi eða með tengsl þangað.
Níutíu mínútna viðbragðstími í alla landshluta
Stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi lýsti stuðningi við tillöguna. Í umsögninni er minnt á fyrri ályktanir SSA í þessa veru og sagt að fyrir bæði íbúa og gesti Austurland geti stuttur viðbragðstími skilið á milli lífs og dauða í alvarlegum atburðum. Staðsetning þyrlu á Akureyri auki því verulega öryggi á svæðinu með styttri viðbragðstíma.
Landhelgisgæslan sjálf var meðal þeirra sem lýstu stuðningi við staðsetningu þyrlunnar. Í umsögn gæslunnar segir að viðbragðsgeta í neyðar- og sjúkraflutningum á Vestfjörðum, Austurlandi og Norðurlandi, sem og við sjómenn og fólk inni á hálendinu, aukist verulega með þyrlu á Akureyri. Með henni verði hægt að ná til allra landshluta á þyrlu á innan við 90 mínútum á hefðbundnum degi.
Landhelgisgæslan hefur vinnu við næstu skref
Um verslunarmannahelgina árið 2023 gerði gæslan tilraun með að hafa þyrlu á Akureyri. Það reyndist vel og flýtti verulega í óhöppum sem urðu þá, meðal annars inn við Herðubreið.
Í samtali við Akureyri.net, sem fyrst greindi frá flutningi þyrlunnar, sagði Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, að verið væri að skoða næstu skref og hvernig flutningi þyrlunnar og áhafnar hennar yrði háttað. Auk kostnaðar við að staðsetja áhöfn, sem er tiltæk í útkall, fyrir norðan hefur verið áætlað að 200-300 milljónir kosti að byggja flugskýli yfir þyrluna.
Fimm prósent útkalla á Austurlandi
Vegna langs viðbragðstíma er sjaldnar óskað eftir aðstoðar þyrlu í atvikum á Austurlandi en nær höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni voru 17 af 334 útköllum hennar á Austurlandi í fyrra eða 5%. Flest voru útköllin á Suðurlandi, eða um þriðjungur.
Af útköllunum eystra voru sex þeirra vegna leitar- og björgunar og fimm vegna aðstoðar við lögreglu. Þá voru sex vegna sjúkraflutninga, en notast er við þyrluna þegar veðurskilyrði eru óhagstæð fyrir sjúkraflugvélar enda er þyrlan almennt töluvert lengur á ferðinni.