Austfirðingar taka Niceair opnum örmum
Bókanir hjá hinu nýja norðlenska flugfélagi Niceair ganga mjög vel að sögn framkvæmdastjóra félagsins og ekkert fer milli mála að fólk á Austurlandi er að sýna flugferðum félagsins töluverðan áhuga.
Rétt rúmur mánuður síðan að bókunarvél Niceair var sett í loftið og er skemmst frá að segja að sögn Þorvaldar Lúðvíks Sigurjónssonar, framkvæmdastjóra félagsins, að sala flugsæta hefur að öllu leyti staðist væntingar og jafnvel gott betur. Það gildi bæði um heimamarkaðinn; Íslendinga sem vilja út, en ekki síður erlent fólk sem vill til Íslands. Í ljós hafi komið að heimamarkaðurinn sé enn sterkari en áætlanir gerðu ráð fyrir.
Gengið var út frá því strax í upphafi að áhrifasvæði Niceair næði bæði Norður- og Austurlandi og aðspurður um hvort fólk á Austurlandi hafi sýnt flugferðum frá Akureyri áhuga og sé farið að bóka staðfestir Þorvaldur að svo sé. Enginn vafi leiki á að fólk á Austurlandi sé að taka þessum nýja ferðamáta opnum örmum ekki síður en fólk Norðanlands.
Til marks um áhugann er þegar orðið uppselt í flugferðir Niceair til Tenerife um næstu jól og áramót en þangað er fyrst og fremst straumur Íslendinga til og frá. Auk Tenerife mun flugfélagið fljúga beint til Kaupmannahafnar og Lundúna þetta fyrsta starfsár. Fleiri áfangastaðir eru til skoðunar þegar fram líða stundir.