Austfirðingar vilja meiri stuðning ríkisins við aðgerðir gegn riðu
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 22. maí 2023 11:49 • Uppfært 22. maí 2023 11:51
Stuðningur við að ríkið leggi meiri fjármuni í aðgerðir til að koma í veg fyrir riðu í sauðfé er mestur á Austurlandi, samkvæmt nýrri skoðanakönnun.
Samkvæmt könnun Prósents eru 89% Austfirðinga fylgjandi eða mjög fylgjandi auknum aðgerðum. Þetta er hæsta hlutfallið, sem er þó aðeins ögn hærra en á Norðurlandi og Suðurlandi. Þar eru þó fleiri sem lýsa sig mjög fylgjandi aðgerðum, 55% á Norðurlandi samanborið við 26% á Austurlandi.
Andstaða mælist takmörkuð á þessum landssvæðum en Austurland sker sig úr að því leyti að hlutfall þeirra sem segjast mjög ósammála fullyrðingu könnunarinnar mælist ekki þar. 8% segjast hvorki sammála né ósammála og 3% ósammála.
Könnunin var gerð dagana 25. apríl til 12. maí í gegnum viðhorfahóp Prósents. Á landsvísu mældist 73% stuðningur við auknar aðgerðir. Stuðningurinn er meiri á landsbyggðinni en höfuðborgarsvæðinu/Suðurnesjum og eins er eldra fólk hlynntara aðgerðum en yngra fólk.