Skip to main content

Austfirsk sjávarútvegsfyrirtæki taka þátt í aðstoð við Úkraínu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. maí 2022 16:15Uppfært 09. maí 2022 16:18

Þrjú austfirsk sjávarútvegsfyrirtæki eru meðal þeirra sem taka þátt í að gefa saman um 130 milljónir króna til stjórnvalda í Úkraínu.


Austfirsku fyrirtækin eru Eskja á Eskifirði, Síldarvinnslan í Neskaupstað og Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði. Að auk er á listanum Brim, sem er með starfsemi á Vopnafirði.

Alls taka átján fyrirtæki þátt í gjöfinni. Ekki er sundurliðað hvernig upphæðin skiptist en í færslu á Facebook-síðu Eskju segir að fyrirtækið hafi lagt fram tíu milljónir.

Í tilkynningu frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi segir að fyrirtækin hafi ákveðið að styrkja stjórnvöld í Úkraínu um eina milljón Bandaríkjadala, eða um 130 milljónir króna. Með þessu vilji fyrirtæki í íslenskum sjávarútvegi leggja sitt af mörkum með von um að bundinn verði endir á hörmungar úkraínsku þjóðarinnar hið fyrsta. Þar segir einnig að haft verði samráð við íslensk stjórnvöld um ráðstöfun fjárins.

Eins og greint hefur verið frá í fréttum hefur Úkraína verið mikilvægt viðskiptaland, einkum fyrir íslenskar uppsjávarafurðir síðustu ár.