Austfirsk skip aðstoðuðu við leit að sjómönnum sem saknað er í Færeyjum
Austfirsku uppsjávarveiðiskipin Barði og Hoffell hafa tekið þátt í leitinni að tveimur skipverjum sem saknað er eftir að línuveiðiskipinu Kambi hvolfdi í gær.Samkvæmt fréttum á vef Varnar, færeyska fiskveiðieftirlitsins og sjóbjörgunarmiðstöðvarinnar, hvolfdi Kambi um klukkan átta í gærmorgunn að íslenskum tíma þegar að skipið fékk á sig brotsjó suður af Færeyjum. Með þyrlu tókst að bjarga 14 skipverjum af sextán en tveggja er saknað.
Þeirra sem saknað er hefur leitað síðan. Austfirsku skipin eru talin upp í frétt Varnar frá í gær yfir þau skip sem aðstoðað hafa, ásamt veiðiskipum frá Rússlandi og Írlandi og flugvéla frá Bretlandi og Danmörku. Austfirsku skipin voru á svæðinu við kolmunnaveiðar.
Færeyskir fjölmiðlar greina frá því að leitað hafi verið til klukkan tíu í gærkvöldi og varðskipið Brimil haldið áfram í nótt. Það heldur áfram í dag með aðstoð loftfara en veðrið hefur heldur versnað á svæðinu. Búið er að finna einn neyðarsendi úr Kambi.